Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nógu að snúast frá klukkan 05:00 í morgun og til 17:00 í dag.
Í Múlunum barst tilkynning um óvelkominn aðila í íbúð en honum var ekið í öruggt húsaskjól. Í sama hverfi var kvartað undan ógnandi aðila í verslun en honum var vísað á brott án vandræða. Í Síðumúlanum var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Var hann hantekinn og fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku. Var hann að því loknu frjáls ferða sinna.
Í Laugardalnum var ökumaður stöðvaður við almennt umferðareftirlit en í ljós kom að hann var réttindalaus. Var tekin lögregluskýrsla af ökumanninum.
Þá barst tilkynning um líkamsárás í miðborg Reykjavíkur. Einnig var tilkynnt um innbrot í tvær fataverslanir í miðborginni. Var einn handtekinn stuttu síðar og var hann þá klæddur í fatnað sem hann hafði stolið úr báðum verslununum. Var þjófurinn í annarlegu ástandi og því færður í fangaklefa þar til hægt verður að taka af honum skýrslu. Var fatnaðurinn handlagður auk annarra muna sem stolið var úr fataverslununum. Flest allt þýfið fannst á aðilanum.
Aukreitis var tilkynnt um hnupl á áfengi á bar í miðborginni en málið var afgreitt með vettvangsskýrslu.
Í Hafnarfirði barst tilkynning um ofurölva farþega í leigubifreið en lögreglan mætti á staðinn og ók aðilanum til síns heima.