Mánudagur 28. október, 2024
4.9 C
Reykjavik

Þó nokkrar umsóknir um að gefa egg eða sæði bárust fyrsta sólarhringinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eggja- og sæðisbankinn Livio Ísland var opnaður fyrir skemmstu. Meginmarkmið hans er að fá bæði eggja- og sæðisgjafa til að svara aukinni eftirspurn eftir gjafaeggja og -sæði á Íslandi.

Helga Sól Ólafsdóttir, umsjónarmaður eggja- og sæðisbanka Livio Ísland, segir Íslendinga greinilega vera áhugasama um að gefa egg eða sæði því strax fyrsta sólarhringinn höfðu þó nokkrar umsóknir borist.

„Það er greinilega töluverður áhugi og vilji til að hjálpa,“ segir Helga Sól. „Íslendingar eru almennt tilbúnir að hjálpa náunganum. Það er ríkt í þjóðarsál Íslendinga að hjálpast að þegar þörf er á.“

„Oft á tíðum eru þetta einstaklingar sem þekkja einhvern sem glímir við ófrjósemi.“

Spurð út í hvaða fólk sé helst sækja um að gefa egg eða sæði segir Helga þetta oft vera fólk sem þekkir einhvern sem hefur gengið í gegnum erfiðleika og sársauka sem fylgir því að vilja eignast barn en getur það ekki. „Oft á tíðum eru þetta einstaklingar sem þekkja einhvern sem glímir við ófrjósemi. Þessir einstaklingar vilja láta gott af sér leiða,“ segir Helga Sól. Hún bætir við að það sé tiltölulega lítið mál að gerast gjafi. „En fyrir þá sem þiggja egg eða sæði þá er þetta ómetanleg gjöf.“

Ekki allir sem henta sem gjafar

Spurð út í hvað felist í því að gerast gjafi segir Helga Sól að viðkomandi þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði áður en umsóknin er samþykkt. Viðkomandi þarf að vera heilsuhraustur andlega sem líkamlega, með góða frjósemi, laus við arfgenga sjúkdóma og án smitsjúkdóma. Fólk þarf að svara ítarlegri heilsufarsskýrslu, fara í blóðprufu og karlmenn fara í sæðisrannsókn. Þá þarf að mæta í læknisheimsókn og fara í viðtal hjá félagsráðgjafa,“ segir Helga Sól.

- Auglýsing -

„Það eru ekki allir sem henta sem gjafar. Um 5-10% karla sem sækja um að gerast gjafar eru samþykktir. Um 50% kvenna geta orðið gjafar. Viðkomandi verður að vera á ákveðnum aldri, vera frjósamur, ekki reykja og vera undir 32 í BMI-þyngdarstuðli.“

„Íslendingar eru almennt tilbúnir að hjálpa náunganum,“ segir Helga Sól.

Spurð nánar út í viðtalið við félagsráðgjafa segir Helga Sól: „Í viðtalinu er fólk spurt út í af hverju það vill gerast gjafi. Hvað forsendur liggja að baki ákvörðuninni. Viðkomandi fær svo fræðslu og er beðinn um að velta ýmsum möguleikum fyrir sér, t.d. hvernig myndi hann eða hún bregðast við ef barn myndi óska eftir að hitta viðkomandi eftir 18 ár? Gjafinn þarf að geta tekið upplýsta ákvörðun.“

Eggja- og sæðisgjafar þurfa að upplýsa sína nánustu

- Auglýsing -

Með tilkomu eggja- og sæðisbanka Livio Ísland geta íslenskir karlmenn nú í fyrsta sinn orðið gjafar en íslenskar konur hafa lengi getað gefið egg, allt frá árinu 1998. Spurð út í hvort smæð Íslands geti ekki valdið vandamálum í tengslum við eggja- og sæðisgjafir segir Helga Sól: „Þetta er eitt að því sem við ræðum við gjafa, hann þarf að upplýsa sína nánustu um að hann eða hún ætli að gerast gjafi, foreldrar, systkini og hálfsystkini viðkomandi þurfa að hafa vitneskju um það. Svo þarf gjafi auðvitað að ræða þetta við maka, ef viðkomandi er í sambandi. Einnig þarf gjafi að upplýsa eigin börn um að hann eða hún hafi gefið sæði eða egg.“

„…foreldrar, systkini og hálfsystkini viðkomandi þurfa að hafa vitneskju um það.“

Þá getur kona gefið tveimur fjölskyldum egg hér heima og ef hún hefur áhuga þá má hún svo gefa í þriðja sinn og þá hjálpað pari erlendis. „Sæðisgjafi getur einnig óskað eftir því að gefa erlendis og það eru ekki nein takmörk fyrir því hve oft sæðisgjafi getur gefið annað en lög og reglur í viðkomandi löndum. Við erum í náinni samvinnu við systurbankann í Svíþjóð.“

Helga Sól segir að þau hjá eggja- og sæðisbanka Livio Ísland mæli með að fólk sé svokallaðir rekjanlegir gjafar sem þýðir þá að mögulegt barn getur óskað eftir upplýsingum um gjafa við 18 ára aldur. „Við erum á því að fólk gefi rekjanlega. Þarna er verið að hugsa um réttindi barnanna en svo er það misjafnt hvort barn hefur áhuga eða ekki á að fá upplýsingar um gjafa eftir 18 ára aldur. Gjafi er alltaf látinn vita ef barn hefur óskað eftir upplýsingum um hann. Það sem börnin hafa áhuga á er þá yfirleitt upplýsingar um t.d. heilsufar. Þau eru ekki að leita eftir sambandi. Þau eiga sína foreldra og langar ekkert í aðra foreldra,“ segir Helga Sól og hlær.

Gefið í velgjörðarskyni

Eins og áður sagði segir Helga Sól tiltölulega lítið mál að gefa sæði eða egg. En vissulega geta einhver óþægindi fylgt gjöfinni. Þess vegna fær gjafi þóknun sem á að bæta upp fyrir mögulegt tekjutap, ferðakostnað og önnur útgjöld. Sæðisgjafar fá 7.000 krónur fyrir hverja samþykkta gjöf og eggjagjafar fá 150.000 krónur fyrir hverja samþykkta gjöf.

„En fólk er að gefa egg eða sæði í velgjörðarskyni. Það fer enginn í þetta nema hann hafi raunverulegan áhuga á að hjálpa fólki að eignast barn.“

Ófrjósemi að aukast

Hingað til hefur verið mikill skortur á gjöfum og eftirspurnin eftir eggjum og sæði er mikil. Helga Sól, sem hefur 20 ára reynslu í málefnum sem varða gjafakynfrumur, segir eftirspurnina hafa aukist á undanförum árum.

„Þörfin er að verða meiri. Við sjáum þetta á Livio Reykjavík og þess vegna erum við að auka þessa starfsemi hjá okkur. Því miður sýna rannsóknir að ófrjósemi er að aukast. Fólk bíður lengur með barneignir. Margir vilja gera aðra hluti áður en það fer út í það að eignast börn en lendir svo í því að tíminn er floginn í burtu þegar það er tilbúið. Svo er alltaf þörf á gjafa þegar um félagslega ófrjósemi er að ræða, þ.e. einstakar konur eða samkynhneigð pör sem vilja eignast barn,“ útskýrir Helga Sól.

Áhugasamir geta kynnt sér málið nánar á vef Livio hérna: www.livioeggbank.is og www.liviospermbank.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -