Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Þór óttast aukið ofbeldi Sjálfstæðismanna eftir árás á Sósíalista: „Í grunninn glæpaklíka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, óttast að skemmdaverkin sem voru framin á húsnæði Sósíalista um helgina séu merki um aukna hörku og ofbeldishneigð meðal Sjálfstæðismanna. Um helgina var húsnæði Sósíalistaflokks Íslands grýtt og Gunnari Smára hótað af manni sem kvaddi „Viva Bjarni Ben“.

Sjá einnig: Gunnari Smára hótað: „Ekki bara belgingur eins og hótanir eru oftast – Viva Bjarni Ben!“

Þór segir í pistli sem hann birtir á Facebook að það sé ekki svo langsótt í ljósi þess að Sjálfstæðismenn eigi það til að elta nýjustu strauma í hægrimennsku vestanhafs. Þór segir flokkinn hafa margt á samviskunni þó ofbeldi sé ekki þar á meðal.

„Það er spurning hvort Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins sé að færa út kvíarnar, aftur. Frá 30. mars 1949 hafa þeir látið opinbert ofbeldi liggja í láginni en notað þess í stað óhróður, undirróður, falsfréttir, Berufsverbot og aðrar miður geðfelldar aðferðir svo sem að slúðra í Bandaríska sendiráðinu, gegn meintum andstæðingum flokksins. Aðferðir sem hafa haft slæm áhrif á líf og lífsafkomu fjölda fólks gegnum áratugina,“ segir Þór.

Þór segir það segja sína sögu að uppáhalds bíómynd Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, sé the Godfather. „Þetta er alvarleg þróun en í takt við það sem er að gerast hjá systurflokki Sjálfstæðisflokkins í Bandaríkjunum, Repúblikanaflokknum, sem hefur elt forystusauð sinn Donald Trump fram af brúninni hvað lýðræðið varðar og bæði beitir og hótar ofbeldi. Minnumst þess að það var ráðherrra Sjálfstæðisflokksins og næsti formaður hans, Guðlaugur Þór Þórðarson sem faðmaði tvö böðla Trumps, það Mike Pence og Mike Pompeio, þegar þeim var boðið hingað í opinberar heimsóknir. Stálhnefa tal háttsetts fólks í flokknum hefur fært hann nær fasisma í pólitískri umræðu og sú staðreynd að bíómyndin Guðfaðirinn er að uppáhaldsmynd núverandi formanns flokksins segir kannski meira en mörg orð um hugarheim hans,“ skrifar Þór.

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn haga sér frekar eins og gengi en stjórnmálaflokkur. „Ég tek undir með Gunnari Smára og fleirum þegar hann tjáir sig um Sjálfstæðisflokkinn og segir: „Í grunninn er Sjálfstæðisflokkurinn glæpaklíka þar sem níðingsskapur gagnvart utanflokksfólki er verðlaunaður en allt sem gert er gagnvart flokksfólki er hefnt margfalt.“

- Auglýsing -

Ég fékk nýlega spurningu frá Hannesi Hólmsteini um hvort ég væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að senda Geir H. Haarde fyrir Landsdóm á sínum tíma, þannig að skrásetningin gegn meintum óvinum flokksins er komin á akademískt stig. Hvað getur maður svo sagt gagnvart svona, annað en að maður er þakklátur fyrir að vera ekki siðlaus Sjálfstæðismaður og hluti af þeirri viðbjóðsklíku sem sá flokkur er,“ segir Þór.

Að lokum segir efast Þór um rannsókn málsins verði í forgangi hjá lögreglunni og vísar til þess að Sjálfstæðismenn hafa stýrt lögreglunni nær alla lýðveldissöguna. „Hvað um það. Þetta mál hefur verið kært til lögreglu og það verður fróðlegt að sjá hvort hún sinnir skyldum sínum gagnvart borgurunum, eða skyldum sínum gagnvart Sjálfstæðisflokknum, við rannsókn þessa máls.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -