Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, segir að viðtal Egils Helgasonar við Hannes Hólmstein Gissurarson í Silfrinu í gær hafi verið fyrir neðan allar hellur. Þór segist ekkert botna í Agli og grunar helst að spilling hafi ráðið för. Egill og Hannes ræddu það þegar Geir H. Haarde var dæmdur í Landsdómi en Þór segir þetta vera enn eina tilraun til að hvítþvo Geir.
„Það var alveg með ólíkindum að sjá enn eina hvítþvottatilraunina á Geir H. Haarde fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins á RÚV í gær. Sannleikurinn í málinu er að Geir var dæmdur í Landsdómi af meirihluta dómsins með vel rökstuddu áliti. Það nákvæmlega sama átti við um dóm Manndréttindadómstóls Evrópu í málinu. Það nákvæmlega sama á við um niðurstöðu þingnefndarinnar sem ákvað að höfða ætti mál gegn Geir,“ skrifar Þór innan Facebook-hóps Sósíalista.
„Það er því alveg með ólíkindum að Egill Helgason annar stjórnenda Silfursins á RÚV, þáttar sem er helsti umræðuþáttur um stjórnmál hér á landi, skuli hafa gengið fram með þessum hætti og fengið í lið með sér dæmdan fræðimann sem hefur verið helsti áróðurspési hægri öfgaafla hér á landi í áratugi, til að hjálpa sér við þennan hvítþvott.“
Þór segir að viðtalið hafi einfaldlega verið áróður frá upphafi til enda. „Hvað Agli Helgasyni, manninum sem svo sannarlega stóð vaktina með prýði í Hruninu og eftirmálum þess, gengur til er ekki gott að segja. Það er þó varla hægt að draga aðra ályktum af þessum gjörningi hans en að hann sé að „leggja inn“ eins og sagt er, hjá Sjálfstæðisflokknum, og eigi í staðin von á einhverjum brauðmolum í eigin faðm.
Slíkt þvaður viðmælanda og mæring spyrjanda sem þarna átti sér stað hefur sjaldan sést og þetta spjall var beinlínis skilgreining á þvi hvernig á að dreifa falsfréttum á sem trúverðugastan hátt. Það er svo að sjálfsöðgu grafalvarlegt ef þáttastjórnendur hjá RÚV komast upp með slíkt á þessum tímum þar sem sannreyning upplýsinga hefur sjaldan skipt meira máli.“
Að lokum segir Þór að Sjálfstæðismenn ættu að líta sér nær hvað þetta mál varðar. „Það fyndna, en samt sorglega við þetta mál er, að það voru Sjálfstæðismenn á þingi sem sjálfir með atkvæðum sínum tryggðu það að Geir H. Haarde fór einn fyrir Landsdóm, í stað þess að fá þrjá aðra með sér. Einmitt, þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjálfir.
Þegar þetta varð ljóst í lok atkvæðagreiðslurnar urðu svo Sjálfstæðismenn alveg brjálaðir, „taktíkin“ hafði snúist upp í klúður og þeirra eigin aðför að formanninum sínum fyrrverandi. Ég benti HHG á þetta þegar hann gerði liðskönnunina um hvort ég væri enn í „óvinaliðinu“ fyrir þessa blessuðu „bók“ og hann hummaði bara. Þeim tókst þó að kaupa Magnús Orra Scram til að skipta um skoðun með einhverju byggingaleyfi fyrir heita potta í Þjórsárdal, og líklega einhverja fleiri líka. Iss“
Viðtalið má sjá hér.