„Það furðulega og sorglega er að það er Samfylkingin sem með handvali framkvæmdastjórnar flokksins í verkalýðsmálaráðið, í bandalagi við útsendara Samherja í verkalýðsfélögum í Eyjafirði og víðar, sem hafa náð að eyðileggja ASÍ.“
Þetta segir þingmaðurinn fyrrverandi, Þór Saari, í athugasemd við færslu Loga Einarssonar, fráfarandi formanns Samfylkingarinnar. Í færslunni segir Þór að átökin um ASÍ séu mikið áhyggjuefni.
Hann nefnir þó ekki að helstu andstæðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR og Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, sitji allir í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar. Þar má helst nefna Agnieszku Ewu Ziólkowska, Halldóru S. Sveinsdóttur formanns Bárunnar og Finnboga Sveinbjörnssonar formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Færsla Loga hljóðar svo: „Átökin á vettvangi ASÍ eru mikið áhyggjuefni fyrir okkur öll sem styðjum baráttu launafólks fyrir betri kjörum. ASÍ og þeir flokkar sem standa að Samfylkingunni eiga að baki langa samfylgd, þó að formlegur aðskilnaður Alþýðuflokks og ASÍ hafi orðið um miðja síðustu öld. Innan okkar flokks eru fjölmörg sem starfa á vettvangi ASÍ og hafa gert um árabil. Við fylgjumst með þessum illvígu átökum með sorg í hjarta og höfum áhyggjur af þessum mikilvægu samtökum launafólks sem geta skipt sköpum ef forystufólk ber gæfu til að stilla saman strengi og vinna saman. Við hljótum öll að hvetja fólk til að hætta innbyrðis átökum og sameinast um það sem skiptir máli: kjör íslenskrar alþýðu.“