Þóra Arnórsdóttir hefur látið af störfum sem ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks.
Er um að ræða enn einn reynslumikinn starfsmann Ríkissjónvarpsins sem lætur af störfum en síðasta ár hafa margir tekið poka sinn og farið annað. Má þar helst nefna Helga Seljan blaðamann, Aðalstein Kjartansson blaðamann, Rakel Þorbergsdóttir fyrrverandi fréttastjóra Rúv og Hauk Harðarsson íþróttafréttamann en dæmin eru fleiri.
Sjá einnig: Flóttinn mikli af RÚV heldur áfram: „Stutt í heykvíslar og ýmiss konar árásir og áreitni“
Lögreglurannsókn er í gangi á svokölluðu „byrlunarmáli“ en Páll Steingrímsson skipstjóri segist hafa orðið fyrir byrlun og að síma hans hafi verið stolið á meðan hann lá á sjúkrahúsi vegna byrlunarinnar. Símanum hafi svo verið komið til Þóru Arnórsdóttur og þáverandi samstarfsmönnum hennar og þau svo opnað símann og sent upplýsingar á Stundina og Kjarnann. Upplýsingarnar vörðuðu svokallaða „Skæruliðasveit“ Samherja sem Páll skiptstjóri var partur af ásamt þeim Þorbirni Þórðarsyni almannatengils og Örnu Bryndísi McClure Baldvinsdóttur lögmanni. Þau Þóra Arnórsdóttir, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Heimildarinnar, hafa öll réttarstöðu sakbornings í málinu.
Sjá einnig: Lögregla hefur upplýsingar um símaþjófinn: „Hægt að setja þá samsæriskenningu upp á hillu“
Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort Þóra hafi látið af störfum vegna rannsóknar lögreglu en ekki náðist í hana við gerð þessarar fréttar.