„Þegar óttinn við útlendinga er orðinn svo megn í Svíþjóð að stór hluti þjóðarinnar styður hægri-öfgamenn í Svíþjóðardemókrötum, ryðst hvítur einmana úlfur, út úr ósköp venjulegri blokkaríbúð, inn í skóla fyrir fullorðinsfræðslu, vopnaður hálfsjálfvirkum riffli og fleiri skotvopnum og fremur versta fjöldamorð í sögu Svíþjóðar.“ Þannig hefst Facebook-færsla Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Íslenskri erfðagreiningu og fyrrverandi fréttakonu á RÚV.
Segir Þóra í færslunni að fjöldamorðinginn eigi margt sameiginlegt við hinn norska Breivik.
„Morðinginn Rickard Andersson er sagður hafa hangið í tölvunni, einangrað sig, verið illa við fólk. Nú hafa sænskir fjölmiðlar ljóstrað því upp að hann hrópaði rasísk ókvæðisorð að fórnarlömbunum, þótt lögreglan hafi verið treg til að gefa neitt slíkt upp. Hægri-öfgamaðurinn og norski fjöldamorðinginn Breivik, var sprottinn úr svipuðum jarðvegi, einn, einangraður, nánast samvaxinn tölvunni. Menn eins og Anderson og Breivik og fleiri sem daga uppi í samfélaginu og nærast andlega nær eingöngu á fordómum, hatri og rusli í tölvunni og fara að aðhyllast rasisma og hægri-öfgar eru orðnir faraldur á Vesturlöndum.“
Næst talar Þóra um þann stuðning sem hægri-öfgaflokkurinn AfD fékk nýverið frá Kristilegum Demókrötum í Þýskalandi.
„Kristilegir Demókratar í Þýskalandi fengu nýlega stuðning , hægri-öfgaflokksins AfD, til að koma í gegnum þingið frumvarpi um hert lög gegn innflytjendum og rufu þannig pólitíska sóttkví AfD sem er spáð miklu fylgi í komandi þingkosningum.
Þetta réttlætti formaður flokksins og taldi nauðsynlegt eftir að afganskur hælisleitandi réðist að leikskólabörnum og stakk 2 ára dreng til bana og mann sem reyndi að bjarga honum.“
Þá segir Þór að hræðsluáróður stjórnmálaflokka um hættulega útlendinga fara „inn í sálinu“ hjá veiku fólki og kveiki hatur.
„Hundahvísl stjórnmálafólks um flóttamannaplágu, stórhættulegt fólk, glæpamenn og hryðjuverkamenn á bótum á Vesturlöndum og handaband og hneigingar þeirra fyrir nýnasistum og hægra-öfgafólki til að „taka umræðuna“ fer inn í sálina á veiku, einangruðu og rugluðu fólki og kveikir hatur.
Meðalið er banvænt.“
Að lokum segir hún að Evrópa sé á hraðri leið í ræsis þar sem Bandaríkin séu nú komin.
„Það eru veikir og vondir einstaklingar um allt í samfélagi manna. Við getum ekki brugðist við því með því að ganga hinu illa á vald, þótt reynt sé að segja okkur annað.
Meðan Ameríka er komin í ræsið er Evrópa á hraðferð þangað líka. Það er reynt að telja okkur trú um að þessi þróun sé vegna of mikillar mennsku. Svarið er kannski frekar að finna í hinu gagnstæða, of lítilli mennsku.“