„Ég var að taka mígrenilyf á sirka þriggja tíma fresti, var farinn að nota allt of mikið og hafði af því áhyggjur. Ég mátti mest nota tvær á dag en var kominn upp í sjö til átta töflur og það stefndi í að ég væri að fara nota enn meira. En á degi tvö af inntöku RSO-olíu þá fór ég niður í þrjár á dag, á degi þrjú var það ein og á degi fjögur þurfti ég ekki að taka lyfin lengur. Svona var þetta og ég algjörlega verkjalaus. Ég trúði þessu ekki. Þetta var í nóvember fyrir ári síðan og ég var verkjalaus um jólin og ég man ekki eftir verkjalausum jólum undanfarin tuttugu ár,“ segir Þórarinn Ævarsson í nýjasta þætti HAMPKASTSINS, umræðuþætti Hampfélagsins. Þórarinn lýsir þar hvernig kannabisolía sem kallast RSO breytti lífi hans fyrir einu ári síðan og einnig hvernig hann sagði skilið við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir með aðstoð hugvíkkandi náttúrulyfja.
Þórarinn sem er landsþekktur athafnamaður og starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri IKEA, Domino’s pizza og Spaðans hefur áður rætt opinskátt um veikindi sín sem hófust með heilablóðfalli fyrir um tuttugu árum síðan. Í kjölfarið fékk Þórarinn þráláta og afskaplega sársaukafulla höfuðverki sem hvorki fannst skýring á né lækning við. Fór það svo að með sterkari verkjalyfjum sökk Þórarinn í fen fíknar og þunglyndis þar til hann var kominn í niðdimman dal. „Þarna var neyslan á oxý-inu komin í algjört stjórnleysi og sobril-inu líka. Ég sá fyrir mér að ég myndi ekki eiga nema einn til tvo mánuði eftir. Skömmin var svo óendanlega mikil, gagnvart fjölskyldunni minni. Ég var búinn að ímynda mér að ég væri að bregðast þeim algjörlega með því að vera ég. Og bregðast meðeigendum. Þetta var endalaus skömm og hún var svo íþyngjandi. Skömmin yfir því að vera orðinn fíkill. Það var allt algjörlega svart. Ég var búinn að plana hvernig ég myndi enda allt saman.“
Það varð Þórarni til happs að þekkja til bandarísks læknis sem ráðlagði honum að fara óhefðbundnar leiðir í átt að betra lífi. „Hann ýtti mér í áttina að annars vegar psychedelics og hins vegar kannabis. Þetta voru hlutir sem ég hafði aldrei reynt. Fyrst var það að koma mér út úr sjálfsvígshugsunum og fíkninni og þunglyndinu og það var með psychedelics.“ Þórarinn byrjaði á að taka sveppi sem innihéldu psílósýbín og MDMA, sem er virka efnið í e-töflum, í smáum skömmtum en sú tilraun bar ekki árangur. Það var ekki fyrr en hann kynntist DMT sem hlutirnir fóru að hreyfast.
DMT er mjög áhrifamikið hugvíkkandi náttúrulyf og annað af tveimur innihaldsefnum í Ayahuasca seyðinu sem hefur notið nokkurra vinsælda hér á landi á undanförnum árum. Þórarinn lýsir því í viðtalinu hvernig heimurinn bráðnaði fyrir framan augu hans og við tók gríðarlegur hávaði og átök. „Þarna fékk ég psychedelic breakthrough
Olía á svarta markaðnum
Þrátt fyrir að vera laus við þunglyndið þá var barátta Þórarins ekki á enda. Höfuðverkirnir hrjáðu hann enn. „Ég var eftir þetta að nota mígrenilyf sem virkuðu ágætlega á mig en það var alltaf minni og minni virkni þannig að haustið 2022 var ég orðinn dapur aftur. Ekki þunglyndur en nokkuð dapur yfir því að vera alltaf verkjaður,“ segir Þórarinn sem aftur leitaði ásjár bandaríska læknisins, félaga síns. Í þetta skiptið barst talið að kannabisefnum, CBD-olíum og lækningamætti plöntunnar. Þórarinn hóf tilraunastarfsemi með mismunandi CBD-olíur þar til honum var bent á RSO-olíu eða Rick Simpson oil. Slík olía er frábrugðin CBD-olíu að því leyti að hún getur verið mjög há í THC-gildum en það er THC sem veldur vímuáhrifum sem CBD gerir ekki. Sökum þessa er RSO-olía með öllu ólögleg á Íslandi.
Eins og áður segir þá virkaði RSO-olían svo vel að höfuðverkirnir hurfu eins og dögg fyrir sólu og líf Þórarins tók stökkbreytingum. „Þetta var fullkomin verkjastilling og engin vímuáhrif því að ég er ekki að leita eftir vímu. Ég er hættur að drekka áfengi og nota engin önnur lyf en ég tek olíuna inn áður en ég fer að sofa á kvöldin þannig að ef það skyldu vera einhver áhrif af henni, sem ég ætla ekki að útiloka, þá er ég sofandi á meðan. Það er engin sljóleiki og þetta er algjör snilld. Ég upplifi þetta alls ekki eins og ég sé að taka inn lyf. Ég er með eina sprautu af þessu í ísskápnum hjá mér og nota eins og eitt hrísgrjón á kvöldi.“
Þórarinn var samt ekki lengi í paradís því á vormánuðum 2023 varð olían illfáanleg. „Það kom upp skortur á kannabismarkaðnum, þessi olía fékkst ekki lengur og ég fór beint í sama helvítið aftur. Tveimur dögum eftir að ég tók síðasta dropann af olíunni þá komu verkirnir aftur á fullu og helmingurinn af þessu ári hefur verið eins og afplánun hjá mér. Allt frá mars, apríl og fram á haustið þegar ég fékk olíuna aftur og hún kikkaði sem betur fer strax aftur inn.“
Þar sem læknum hefur ekki tekist að finna út hvað veldur höfuðverkjum Þórarins er ekki auðvelt að henda reiður á það hvernig RSO-olían slær á verkina. „Þetta eru líklega einhverjir taugaverkir og þá er það að róast hjá mér taugakerfið. Ég held að það hljóti að vera það, einhvers konar ró á kerfinu. Þetta hefur þessi lygilegu áhrif, það bara slokknar á verknum. Hann bara fer.“
Óánægður með Sigmund Davíð
Þrátt fyrir að RSO-olían sé aftur fáanleg þá er eingöngu hægt að kaupa á hana á svörtum markaði og verður að teljast nokkuð sérstakt að landsþekktur athafnamaður opinberi lögbrot sín. Það gerði hann einnig í umsögn til velferðarnefndar Alþingis en þar er til meðferðar þingsályktunartillaga um notkun kannabislyfja í lækningaskyni. „Eins og ég segi í umsögn minni þá er eitthvað að í samfélaginu þar sem maður eins og ég, sem hefur beisiklíalltaf verið réttum megin við lögin, búinn að glíma í 20 ár við viðbjóðslega verki, finn sárasaklausa aðferð til að fá hugarró og í raun lífið mitt aftur og það á að vera ólöglegt. Hver eru fórnarlömbin? Hver er að verða fyrir skaða? Það er enginn að verða fyrir skaða. Í staðinn fyrir að ég fari í örorku þá er ég kominn aftur í háskóla, ætla að læra meira og ætla að vera góður skattgreiðandi næstu tíu árin eða hvað það nú er. Ef það eru engin fórnarlömb þá er enginn glæpur og ég held að fólk sé að átta sig á þessu. Loksins er lokið farið af pottinum og það verður ekkert sett á aftur.“
Þórarinn er bjartsýnn á að þingsályktunartillagan verði samþykkt enda þingmenn þvert á flokka sem styðja hana. Aftur á móti er einn þingmaður sem hann vill sjá breyta afstöðu sinni. „Ég er óánægður með Sigmund Davíð [Gunnlaugsson þingmann Miðflokksins] sem er búinn að setja sig mikið upp á móti þessu. Ég held að hann sé drulluklár og þetta er dæmi um að sagan mun ekki fara vel með hann að hengja sig á þessa skoðun. Því þetta er þjóðþrifamál. Vonandi hlustar hann því þetta er að fara gerast!“
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan, Gunnar Dan Wiium, stjórnarmaður í Hampfélaginu, tók viðtalið við Robert, Mickael Omar Lakhl