Þriðjudagur 3. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Þórarinn:„Myndi það draga úr hamingjunni ef þú fengir bara tvö læk á mynd af nýfædda barninu þínu?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórarinn Hjartarson hlaðvarpsstjórnandi segir ákveðinn hóp í samfélaginu lifa fyrir að dyggðarskreyta sig á kostnað annarra. Þórarinn, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar segir okkur komin mjög djúpt inn í spegilmyndarveruleika internetsins:

„Það er ákveðinn hópur af fólki sem virðist nærast á því að ráðast á aðra á netinu, sem hlýtur að vera mjög sérstök tilvera. Ef þú ert með lítinn vinnustað og þú ert að fara að ráða manneskju í vinnu sem þú sérð að er stanslaust að drulla yfir fólk á netinu efast ég um að það sé það sem þú vilt fyrir stemmninguna á vinnustaðnum. Þetta getur ekki verið sá mannkostur sem við erum að leita að. Fólk sem gerir ekki annað en að ráðast á þá sem misstíga sig eða eru þeim ósammála. Við höfum farið í gegnum tímabil þar sem mjög reitt fólk á netinu hefur náð að halda stórum hópi fólks í hræðslu við að tjá sig,“ segir Þórarinn og heldur áfram:

„Ég er bara nýbyrjaður að leika mér á Twitter og það er ekki sérstaklega skemmtilegur vettvangur. Ef Twitter væri partý væri það leiðinlegt. Samkvæmi þar sem er samankomið fólk sem reynir að finna eitthvað til að móðgast yfir og reyna að finna höggstað á fólkinu í samkvæminu, þannig að allir þyrftu að vera á tánum allan tímann. Allt til þess að Twittermanneskjan geti á endanum fundið eitthvað til þess að dyggðarskreyta sjálfa sig yfir einhverju sem önnur manneskja sagði eða gerði.“

Þórarinn segir að umræðan á samfélagsmiðlum hafi orðið mun meiri en áður í Covid-faraldrinum, einfaldlega af því að fólk hafi haft meiri tíma til að vera á netinu. Mjög margir hafi aukið samfélagsmiðlanotkun sína mikið og það hafi svo haldið áfram:

„Við erum mörg komin á þann stað að við gerum nánast ekkert án þess að setja það á samfélagsmiðla. Ef við löbbum á Esjuna sýnum við myndir af því, við förum ekki út að borða með einhverjum án þess að birta mynd af því og svo framvegis. Við erum alltaf að reyna að spegla einhverja mynd af því hvernig við viljum vera gagnvart öðrum og mótum okkur svo út frá því hvað við teljum að aðrir vilji að við séum. Þetta er í mínum huga ákveðið mein, sem veldur því að það er orðið erfiðara að vera bara maður sjálfur. Ef að sú spegilmynd sem við fáum frá öðrum í gegnum athugasemdir og „like“ er ekki góð, förum við að efast. Ég velti því til dæmis fyrir mér hvort það myndi draga úr hamingjunni við að eignast barn ef að þú fengir bara tvö læk á myndina af nýfædda barninu þínu. Ég er nokkuð viss um að það myndi hafa áhrif á flesta. Við erum komin mjög djúpt inn í þennan spegilmyndarveruleika af okkur sjálfum.“

Í þættinum ræða Þórarinn og Sölvi einnig um hatursorðræðu, sem Þórarinn segir sérstakt hugtak sem ákveðinn hópur hefur eignað sér:

- Auglýsing -

„Allir hafa sína eigin skilgreiningu, og hugmyndir, um það hvað hatursorðræða sé. Eðli málsins samkvæmt er því engin ein rétt skilgreining til. Í raun er þetta hugtak atlaga að tjáningarfrelsi, þar sem ríkjandi stjórnvöld hverju sinni geta bannað það sem þeim mislíkar. Það eru ákveðnir hópar sem telja sig geta skilgreint hvað er hatursorðræða og hvað ekki, án þess að íhuga fyrir alvöru hversu mikið inngrip er um að ræða í tjáningu fólks. Fólk verður að þola umræðu sem því mislíkar og það er ekki hægt að heimta að þagga niður alla orðræðu sem er okkur ekki þóknanleg. Það er heldur engin leið til þess að láta umræðuna hverfa, hún fer bara á aðra staði og grasserar þar. Það eru engin umræðuefni þess eðlis að það þurfi að þagga þau niður til þess að laga samfélagið. Við eigum að ræða hlutina, alveg sama hversu erfiðar umræðurnar eru.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Þórarinn og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -