Fyrr í dag fór Ari Edwald í leyfi sem framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings og Hreggviður Jónsson steig til hliðar úr stjórn Veritas og tengdra fyrirtækja. Þá greinir Vísir frá því að Arnar Grant sé í tímabundnu leyfi frá störfum, samkvæmt upplýsingum frá Birni Leifssyni, eiganda World Class. Fréttastofa hefur ekki náð í Björn vegna málsins í dag.
Málið hefur verið til umræðu á Mannlíf og á samfélagsmiðlum, eftir að konan greindi frá því í viðtali lýsti hún hvernig mennirnir hefðu farið yfir hennar mörk í heitum potti í sumarbústaðarferð í desember 2020. Hún nafngreindi mennina ekki í viðtalinu en hafði nefnt nöfn þeirra á samfélagsmiðlum í fyrra.
Hreggviður Jónsson sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis, þar sem hann greinir frá því að hafa sagt sig úr stjórnum Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja.
Þar segist Hreggviður harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hafi skýrt frá og fjallað hafi verið um í fjölmiðlum. Hann hafi ákveðið að segja sig úr stjórnum fyrirtækjanna þótt hann telji sig ekki hafa gerst brotlegur við lög, til þess að raska ekki mikilvægri starfsemi þeirra.
Ari Edwald er kominn í leyfi frá störfum eftir að hafa óskað sjálfur eftir því. Þetta staðfestir Einar Einarsson, rekstrarstjóri Íseyjar, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Stundin greindi fyrst frá.