Þórður Snær Júlíusson, annar tveggja ritstjóra Heimildarinnar og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Heimildarinnar, unnu í dag meiðyrðamál gegn Páli Vilhjálmssyni framhaldsskólakennara.
Þórður Snær og Arnar Þór kærðu Pál fyrir meiðyrði vegna ummæla sem framhaldsskólakennarinn hafði uppi um þá á bloggsíðu sinni, sem hýst er að Morgunblaðinu, þar sem hann staðhæfði að Þórður og Arnar hefðu framið alvarleg hegningarlagabrot með því að koma að því að byrla manni og síðan stolið einhverju af honum. Um er að ræða Byrlunarmálið svokallaða sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur rannsakað undanfarin ár.
Héraðsdómur Reykjavíkur ómerkti ummæli Páls og þarf kennarinn að greiða blaðamönnunum 300 þúsund krónur, hvorum fyrir sig, auk málskostnaðar upp á 700 þúsund krónur.
Sjá einnig: Þórður Snær segir Moggann hafa náð botninum: „Allt er þetta ósatt og augljós meiðyrði“