Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að engin fyrirliggjandi gögn né handfastar vísbendingar séu uppi fyrir því að reynt hafi verið að eitra fyrir Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja. Ritstjórinn sætir lögreglurannsókn, ásamt þremur öðrum blaðamönnuum, fyrir að hafa framið stafrænt kynferðisbrot gegn skipstjóranum.
Páll hefur fullyrt að eitrað hafi verið fyrir honum og farsíma hans síðan stolið. Gögn úr hinum stolna farsíma hafi síðan verið dreift til fjölmiðlamanna og verið notuð sem grunnur í fréttaflutningi. Þórður segir gögn málsins hins vegar sýna það svart á hvítu að ekkert liggi fyrir um að eitrað hafi verið fyrir Páli.
Það kemur fram í ítarlegri skýringargrein Þórðar sem hann birtir á eigin miðli. Við skulum gefa Þórði Snæ orðið:
„Páll Steingrímsson hefur haldið því fram að fyrir honum hafi verið eitrað með þeim afleiðingum að hann hafi misst meðvitund og verið fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með sjúkraflugi. Farið hefur verið með þessa staðhæfingu sem staðreynd víða í þjóðmálaumræðunni síðustu mánuði, eða allt frá því að mbl.is birti mynd af Páli í sjúkrarúmi 25. maí 2021.
Við skýrslutöku sagði Páll að hann teldi að honum hefði verið byrlað svefnlyfinu Imovane. Páll hélt því fram að lyfinu hafi verið blandað í bjór sem honum var færður. Hann sagðist auk þess þekkja lyfið vel þar sem „hann var vanur að nota það tengt vinnu.“
Gögn málsins sýna sannarlega að Páll veiktist snemma í maí í fyrra og að hann hafi verið í krítísku ásigkomulagi. Þau sýna að hann hafi verið fluttur til Reykjavíkur frá Akureyri vegna ástands síns. En þau sýna líka svart á hvítu að ekkert liggur fyrir um að eitrað hafi verið fyrir manninum. Í þeim eru hins ýmsar aðrar mögulegar ástæður fyrir ástandi hans viðraðar af mun meiri alvöru.
Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir játning þess aðila sem hann sakar um að hafa byrlað sér. Þvert á móti neitar sá aðili því staðfastlega, tvívegis, við skýrslutöku að hafa eitrað fyrir Páli. Í öðru lagi liggja fyrir sjúkraskýrslur, bæði frá Akureyri og Reykjavík, þar sem skýrt kemur fram að ekkert bendi til þess að eitrað hafi verið fyrir honum.
Á sjúkrahúsinu á Akureyri, þann 4. maí 2021, voru framkvæmdar fjölmargar rannsóknir á Páli en engin ástæða fannst fyrir meðvitundarskerðingu hans. Svokallað tox-screen fyrir eiturefnum var neikvætt. Það fannst ekkert í blóði hans. Í greinargerð til lögreglu stendur: „Við fundum ekki neinar prufur sem bentu til eitrunar.“ Páll brást heldur ekki við því þegar honum voru gefin mótefni fyrir morfín- eða róandi lyfjum á borð við Imovane.
Í réttarfræðilegri matsgerð réttarmeinafræðings, sem lögreglan á Norðurlandi eystra keypti fyrir 113.570 krónur, kemur fram að hægt sé að gera eiturefnamælingu á höfuðhári. Það krefst þess að minnst 4-6 vikur séu liðnar frá atburðinum áður en hársýni er tekið og að viðkomandi hafi ekki farið í litun/aflitun á hári né meiriháttar klippingu. Í matsgerðinni segir: „Í þessu tilviki upplýsti lögreglan að maðurinn, sem var mjög þunnhærður, hafði farið a.m.k. 3 sinnum í klippingu og var mjög stuttklipptur. Lögreglan mat það svo að það væri mjög langsótt að hægt væri að fá nothæft sýni frá manninum, og var fallið frá því að láta á það reyna.“
Niðurstaða réttarmeinarfræðingsins er skýr: „Ekki er hægt að komast að frekari niðurstöðu hvað olli ástandi mannsins að svo stöddu. Í fyrirliggjandi gögnum fundust engar handfastar vísbendingar um að reynt hafi verið að eitra fyrir honum.“