Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, er hættur störfum. Hann upplýsir um brotthvarf sitt í færslu á Facebook og segist sjálfur hafa haft frumkvæði að starfslokunum.
„Fyrir nokkru tilkynnti ég stjórn Sameinaða útgáfufélagsins að ég hefði hug á að láta af störfum sem ritstjóri Heimildarinnar og sú niðurstaða formgerðist í dag,“ skrifar Þórður á Facebook.
Hann segir engan vera ómissandi og það komi alltaf einhver í manns stað. „Heimildin er á góðu róli, búin að fara í gegnum tímabil umbreytinga og uppbyggingar, orðinn mikilvægur miðill í íslensku samfélagi og finna ákveðinn stöðugleika sem mun án efa nýtast til enn frekari vaxtar,“ segir hann.