Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, er um þessar mundir í Genf og flutti hún ávarp í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í dag.
Talaði utanríkisráðherrann meðal annars um málefni hinsegin fólks en margir telja að bakslag hafi orðið í baráttu þeirra í samfélaginu, bæði á Íslandi og erlendis. Sem dæmi hætti Hinsegin kórinn við að taka þátt í World Pride í Bandaríkjunum sem verður í sumar vegna ótta við ástandið þar í landi.
„Hvað mig varðar er eitt á hreinu; engin manneskja á að þurfa að lifa í ótta um ofsóknir eða ofbeldi. Þetta á við líka ef ofsóknirnar grundvallast á kynhneigð fólks eða kynvitund og Ísland mun ekki hika við að láta til sín taka á vettvangi mannréttindaráðsins fyrir fólk sem sætir slíkum ofsóknum, við munum ljá öllum þeim rödd sem berjast fyrir sjálfsögðum réttindum sínum. Við erum nefnilega öll fædd frjáls og njótum öll sömu réttinda,“ sagði Þorgerður Katrín.
Í ræðu sinni lagði ráðherra einnig áherslu á að standa þurfi vörð um Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðakerfið sem komið var á laggirnar eftir síðari heimsstyrjöld. Hart væri sótt gegn þeim gildum sem ríki heims hefðu þá sammælst um að virða og þá gagnrýndi ráðherra sérstaklega ólöglega allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu.