Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætlar að hvetja bandamenn Íslands til að grípa til frekari aðgerða gegn Ísrael.
Utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir í skriflegu svari til Mannlífs að Ísland geti ekki eitt og sér beitt Ísrael viðskiptaþvingunum, það fari eftir vilja Evrópusambandsins. Þá segir Þorgerður að Ísland muni samþykkja niðurstöðu Alþjóðadómsstólnum í kærumáli Suður-Afríku vegna þjóðarmorðsins í Palestínu.
Mannlíf spurði utanríkisráðherra tveggja spurninga en hér má sjá þá fyrri:
Hyggst ríkisstjórn Ísland beita Ísrael viðskiptaþvingunum, í ljósi þess að tveir flokkar af þremur sem nú eru í ríkisstjórn lýstu því yfir fyrir kosningar að þeir vildu beita Ísraelsríki viðskiptaþvingunum vegna þjóðarmorðsins á Gaza?
Svar Þorgerðar Katrínar: „Eins og ég hef sagt er ástandið á Gaza óásættanlegt og öruggt að framin hafa verið alvarleg brot á alþjóðalögum. Ég hef þegar átt góð samtöl við meðal annars framkvæmdastjóra UNRWA og yfirmann mannúðar- og uppbyggingarmála Sameinuðu þjóðanna fyrir Gaza til að öðlast dýpri skilningi á stöðunni og bjóða fram krafta Íslands. Þá voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs til umræðu á fundum mínum með utanríkisráðherrum Noregs og Danmerkur í vikunni.“ Bætti hún við: „Engin heimild er fyrir því í íslenskum lögum að Ísland setji einhliða þvingunaraðgerðir. Sem stendur innleiðir Ísland allar þvingunaraðgerðir sínar á grundvelli ákvarðana Evrópusambandsins, þar með talið þær þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur meðal annars innleitt þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn landtökufólki og samtökum þeirra á Vesturbakkanum vegna ofbeldisfullrar framgöngu gegn Palestínumönnum. Máttur þvingunaraðgerða felst í breiðri fjölþjóðlegri samstöðu. Norðurlöndin hafa ein og sér ekki gripið til þvingunaraðgerða, enda jafnvel þótt samstaða ríkti væri ólíklegt að þær hefðu raunveruleg áhrif nema slíkt væri gert í samfloti við fleiri ríki. Við munum hins vegar tala fyrir því við okkar helstu bandamenn að gripið verði til frekari aðgerða.“
Þá spurði Mannlíf hvort ríkisstjórnin hyggðist styðja opinberlega við kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríki fyrir brot á sáttmála SÞ um þjóðarmorð, líkt og Viðreisn og Samfylkingin lýstu áhuga fyrir kosningar.
Svaraði Þorgerður Katrín því til að Ísland muni viðurkenna og virða niðurstöðu dómstólsins og að ákall Íslands um að Ísrael fari eftir úrskurðum dómstólsins, hafi verið skýr.
„Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með framgangi máls Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum. Ísland mun viðurkenna og virða niðurstöðu hans. Fram til þessa hefur dómstóllinn í þrígang úrskurðað um bráðabirgðaráðstafanir sem Ísrael er gert að grípa til. Ákall Íslands hefur verið skýrt um að Ísrael farið í einu og öllu eftir úrskurðum dómstólsins og mun það sama eiga við um endanlegan dóm.“