Í fyrradag opnaði valkyrjustjórnin samráðsgáttina „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“ og er markmið þess að leita til almennings varðandi hugmyndir til hagræða í ríkisrekstri, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Uppátæki þetta hefur vakið mikinn áhuga þjóðarinnar en þegar þetta er skrifað hafa 1900 umsagnir borist í samráðsgáttina.
„Í öllum þessum hundruð eða þúsundum tillagna hljóta nú að leynast gullmolar, ég er sannfærð um það,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra við mbl.is um þessa nálgun ríkisstjórnarinnar.
„Það litla sem ég er búin að sjá, eins og til dæmis sameining stofnana, án þess að ég tilgreini hvaða stofnanir það eru, þá er alveg ljóst að við getum gert ýmislegt hvað það varðar. Í hagræðingu, nýtingu fjármuna, einföldum regluverks og svo framvegis,“ sagði ráðherrann um málið. „Mér finnst þetta frábært, gaman að við ákváðum að fara þessa leið, ríkisstjórnin, klukka fólkið okkar í landinu.“
Áfengi, sendiráð og komugjöld
Umsagnirnar eru vægast sagt fjölbreyttar og áhugaverðar og verður forvitnilegt að sjá hversu mikið verður tekið mark á þeim.
„Hætta/banna áfengiskaup i heild sinni. Hætta óhóflegum veitingum við viðburði. Takmarka verulega fundahöld á veitingastöðum þar sem fundaaðilar borða td i hádegi dýrustu rétti margra rétta matseðla m tilheyrandi vínkaupum og slíku og senda svo reikningana á ráðuneytin/ríkið. I slíku ætti algerlega að banna áfengi, (enda er hádegi miður vinnudagur flestra) Takmarka leigubílanotkun starfsmanna ríkisins,“ skrifar Steinunn Þorleifsdóttir í samráðsgáttina.
„Er ekki löngu tímabært að innheimta komugjöld á flugfarþega eins og tíðkast í öðrum löndum ? Komugjöldum er hægt að stilla í hóf t.d. 10-15 € á haus. Svo er ein hugmynd að sparnaði: Má ekki ný brú við Selfoss yfir Ölfusá vera hefðbundin brú eins og við sjáum yfir stórfljót sunnanlands?“ spyr Hilmar Sigurðsson.
„Fækka eða loka sendiráðum erlendis, þetta eru börn síns tíma. Það er hægt að senda út fulltrúa með stuttum fyrirvara, ef mál koma upp erlendis, þá getur 1 starfsmaður sinnt fleiri löndum og sofið heima hjá sér. Og við þurfum ekki að hafa á leigu húsnæði út um allan heim,“ stingur Guðrún Andrésdóttir upp á.