Útvarpskonan Þórhildur Ólafsdóttir flutti með eiginmanni sínum og börnum til Úganda en eiginmaður Þórhildar vinnur fyrir utanríkisþjónustu Íslands. Í viðtali við RÚV segir Þórhildur meðal annars frá upplifun sinni af Kampala, höfuðborg Úganda, og landinu sjálfu.
„Það er svo mikið af fólki þarna og hún dreifir sér um allt. Innviðirnir eru í algjöru skralli, það er svo mikil mengun og hræðileg umferð,“ sagði Þórhildur um höfuðborgina. „Ég fann það bara mjög fljótlega eftir að við höfðum verið þarna í smá tíma að eina leiðin fyrir mig að þola þessa borg er að fara út úr henni með mjög reglulegu millibili. Annars kafna ég. Umferðin þarna er fullkomlega sturluð. Bæði er ógeðslega mikið af bílum og vegirnir eru hræðilegir,“ en rúm ein og hálf milljón manns búa í borginni sögufrægu.
Grænt og fallegt
Þórhildur kann þó vel að meta landið utan borgarinnar. „Eins ljót og leiðinleg Kampala getur verið þá er landið sjálft ofsalega fallegt og skemmtilegt. Ég meina, þarna vex allt og grær, það er svo grænt og fallegt þarna. Ég er með mangó- og avókadótré í garðinum hjá blokkinni okkar. Ég er að borða bestu ávexti í heimi þarna,“ sagði Þórhildur. „Ég mun aldrei komast yfir að sjá allt þetta land. En svo líka notum við tækifærið, fyrst maður er þarna niður við miðbaug að fara og ferðast um.“