Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að ef rétt reynist að veikindi af völdum Omíkron-afbrigðisins séu minni en af öðrum afbrigðum Covid-19 hingað til, verði ástæða til að slaka á aðgerðum innanlands.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi klukkan 11.
Smit af völdum Omíkron-afbrigðisins eru nú í kringum 90 prósent af heildarfjölda daglegra smita.
Þórólfur sagði á fundinum að ef í ljós kæmi, eins og vísbendingar gefi til kynna, að alvarleg veikindi af völdum Omíkron-afbrigðisins væru fremur fátíð, gæti afbrigðið hjálpað okkur við að ná fram hjarðónæmi í samfélaginu og hugsanlega komið okkur lengra út úr faraldrinum.
Enginn sem er inniliggjandi á Landspítalanum núna hefur fengið örvunarskammt. Flestir þar eru með Delta-afbrigðið, en tveir liggja inni á spítalanum með Omíkron-afbrigðið.
Nú liggja sex á gjörgæslu á Landspítala, þar af fimm í öndunarvél. Sjúklingum á gjörgæslu hefur fjölgað um tvo á milli daga. Það sama má segja um þá sjúklinga sem eru í öndunarvél, sem í gær voru þrír.
Heildarfjöldi sjúklinga sem liggja á Landspítala vegna COVID-19 er 21. Meðalaldur inniliggjandi er 60 ár. Í gær bættust 852 við í eftirlit Covid göngudeildar Landspítalans.
„Ef rétt reynist að alvarleg veikindi af völdum Omíkron-afbrigðisins séu sjaldgæf þá ættum við tiltölulega fljótt að geta slakað á þeim hömlum og þannig fengið þannig útbreitt ónæmi af völdum náttúrulegra sýkinga ofan í þá vernd sem bólusetningarnar eru að gefa. Þannig ætti að vera hægt að hverfa hægt og bítandi til eðlilegra lífs,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundinum.