Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

Þórólfur ráðleggur fólki að fara varlega: „Ljóst að þetta afbrigði er meira smitandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ný undirafbrigði omicron-afbrigðis kórónuveirunnar, omicron BA.4 og BA.5, hafa á stuttum tíma orðið útbreiddustu afbrigðin í nýjum smitum víða um heim. Ísland er engin undantekning, en BA.5-afbrigðið ber nú ábyrgð á meirihluta smita hér á landi, sem hefur fjölgað talsvert undanfarnar vikur. Hin nýju afbrigði virðast meira smitandi en fyrri afbrigði, auk þess sem það lítur út fyrir að þau eigi greiðari leið framhjá vörnum bólusetninga og fyrri sýkinga. Sóttvarnalæknir segir ástæðu til þess að fólk fari varlega, til að mynda í margmenni, skerpi á einstaklingsbundnum sóttvörnum og hvetur alla til þess að þiggja örvunarskammt af bóluefni.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við Mannlíf að BA.4-afbrigðið sé ekki algengt hér á landi en að BA.5 hafi verið í miklum vexti. Hann segir að líkt og víðast hvar annarsstaðar beri það afbrigði ábyrgð á meirihluta greindra smita á landinu undanfarið.

„Það er nokkuð ljóst að þetta afbrigði er meira smitandi en fyrri afbrigði,“ segir Þórólfur. Hann segir sífellt virðast bætast í flóru afbrigðanna og eðlilega nái þau mestri útbreiðslu sem séu mest smitandi.

Hann segir afbrigðið ekki virðast valda meiri veikindum en fyrri afbrigði omicron, sem voru mest áberandi á fyrri hluta árs. „Það er ekki að sjá að svo sé.“

 

Bólusetningar og örvunarskammtur skipta miklu

„Það er rétt að afbrigðið er að smokra sér undan vernd bóluefnanna, en við vitum þó að bólusetningin er ekkert sérstaklega góð til þess að koma í veg fyrir smit en er ennþá góð til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Þannig að það er eftir miklu að slægjast í því að láta bólusetja sig og fá þennan örvunarskammt,“ segir Þórólfur.

- Auglýsing -

Hann segir að eftir að BA.5-afbrigðið fór að dreifa sér um samfélagið hafi farið að bera meira á aukningu í endursmitum. „Hjá þeim sem hafa sýkst áður. Þeir eru svona líklegri til þess að fara að smitast aftur.“ Hann segir það þó algengara meðal þeirra sem smituðust af Covid-19 áður en omicron-afbrigðið kom til sögunnar, í byrjun desember síðastliðnum. „Það getur líka verið tíminn; því lengri tími sem líður, því meira dvín verndin.“

Mynd/skjáskot RÚV

Getur svipað til fyrstu afbrigða

Erlendis hefur eitthvað verið fjallað um að einkenni hinna nýju afbrigða geti jafnvel svipað meira til einkenna sem fylgdu fyrstu afbrigðum Covid-19, í upphafi faraldursins. Þórólfur kannast við að hafa séð það, en það sjáist þó aðallega hjá þeim sem séu óbólusettir eða illa bólusettir. „Þeir eru að veikjast alvarlegar og með einkenni sem eru svipuð og sáust þarna í upphafi faraldursins. Þannig að það er klárt að bólusetningin er að draga verulega úr alvarleika smitanna. Þannig að ég held að alvarleiki afbrigðisins sem slíks sé í raun og veru kannski ekkert minni en í fyrstu afbrigðunum, við erum bara komin með betra ónæmi í samfélagið. Bæði út af bólusetningum og fyrri smitum, sem eru að dempa þetta niður. Samt erum við að sjá svona mikið af sýkingum.“

 

- Auglýsing -

Sér ekki ástæðu til aðgerða en fólk ætti að fara varlega

Aðspurður segist Þórólfur ekki sjá ástæðu til þess að gripið verði til sérstakra aðgerða eða takmarkana vegna útbreiðslu smita. „Hins vegar höfum við verið að hvetja fólk, sérstaklega þá sem eru óbólusettir eða illa bólusettir, hafa ekki fengið Covid, fólk sem er eitthvað viðkvæmt fyrir; eldra fólk, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, að fara varlega. Nota grímur og gæta vel að handþvotti, fjarlægðarmörkum og þessu sem allir þekkja nú. Þær ráðleggingar eru ennþá í gildi.

Svo getur maður líka hvatt almenning til að gæta vel að sínum grunnsóttvörnum alla daga. Það er handþvottur, kannski að forðast fjölmenni og svoleiðis. En þetta eru bara svona almennar ráðleggingar sem við erum að koma með – mér sýnist nú fólk kannski ekkert vera að passa sig neitt sérstaklega vel svona upp til hópa. En þetta eru aðallega þeir sem eru viðkvæmir fyrir; eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, vegna þess að við vitum að það fólk getur farið illa út úr sýkingunni, jafnvel þótt það sé bólusett. Þannig að það er um að gera að það fólk passi sig.“

Þórólfur segir útbreiðslu smita eflaust hafa mikið að gera með tíðar samkomur þessa dagana. „Það eru alls konar veislur í gangi, útskriftir, fermingar og slíkt. Það spilar klárlega meginrulluna, plús það hvað þetta er smitandi afbrigði.“

Þórólfur segir eindregið mælt með því að fólk fái örvunarskammt, óháð því hvort það hafi smitast af Covid eftir að hafa fengið fyrri og seinni skammt bóluefnis. „Við vitum auðvitað að það er vernd falin í því að fá Covid, en við vitum ekki nákvæmlega hversu góð hún er og ég held að það sé full ástæða til þess að hvetja fólk til að vernda sig bara sem best. Þannig að við erum að mæla með þessum örvunarskammti fyrir alla, nema börnin.“ Hann segist því tvímælalaust leggja það til við hrausta einstaklinga sem hafi fengið fyrri og seinni skammt bóluefnis, auk sýkingar, að ná sér í þriðju sprautuna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -