Samkvæmt Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnarlækni, hafa engar tilkynningar borist um alvarleg veikindi vegna hins nýja omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Þetta kemur fram hjá RÚV.
Þórólfur segir að enn standi ekki til að herða aðgerðir á landamærunum vegna afbrigðisins. Hann segir að eins og aðrir séum við að bíða frekari upplýsinga um afbrigðið. „Hvernig það hegði sér, hversu vel það smitast á milli manna, hvort það valdi alvarlegum sjúkdómi og hvort bóluefnin virka á það.“ Hann segir þörf á frekari upplýsingum áður en gripið verði til hertra aðgerða.
Myndi finnast í raðgreiningu
Þórólfur segir að ef afbrigðið kæmi hingað myndi það greinast í raðgreiningum Íslenskrar Erfðagreiningar. Fyrirtækið sér nú um allar raðgreiningar á veirunni og allir sem smitast eru raðgreindir. Hann segir forsvarsmenn fyrirtækisins hafa fullyrt að þeir myndu finna omíkron-afbrigðið ef til þess kæmi. „Þeir eru í startholunum.“