Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Þórólfur segir hugsanlega þörf á að endurskoða afléttingar: „Fólk með einkenni er víða og í vinnu.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir telur að mögulega þurfi að endurskoða væntanlegar afléttingar samkomutakmarkana, ef smitum heldur áfram að fjölga eins og verið hefur.

Áttatíu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og innan við helmingur þeirra var í sóttkví. Nýgengi innanlandssmita, fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur, hefur verið á uppleið undanfarna daga. Í gær var það 220,1 en er í dag 232,1.

Þrjú smit komu upp á landamærunum í gær, þ.e. tvö virk smit í fyrri landamæraskimun og eitt þar sem enn er beðið eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu.

Sjö eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og er einn þeirra á gjörgæslu. 40 prósent þeirra sem greindust með Covid-19 síðustu þrjá daga voru í sóttkví, en 60 prósent utan sóttkvíar.

Töluverður fjöldi fólks greindist sömuleiðis með veiruna um nýliðna helgi, eða 70 manns á dag.

Þórólfur segir ljóst að kórónuveirufaraldurinn sé enn og aftur á uppleið. Hann segir veiruna vera komna víða um samfélagið og það sé áhyggjuefni þegar hún fari að smeygja sér inn á spítalann.

- Auglýsing -

Síðustu misseri hefur mikið verið slakað á samkomutakmörkunum og til stendur að aflétta aðgerðum innanlands að fullu eftir rúmar þrjár vikur.

„Það eru náttúrlega stjórnvöld og ráðherra sem ráða þessu endanlega. En ég held að ef við förum að fá mikla aukningu, og aukningu á spítalanum, að menn þurfi nú kannski að endurskoða þær áætlanir,“ segir Þórólfur og segir að um sé að ræða framtíðarsýn stjórnvalda. Það þurfi alltaf að endingu að sníða aðgerðir að raunverulegri stöðu faraldursins.

„Það verður að skýrast af því hvað gerist á spítalanum næstu dagana. Hvernig hann er í stakk búinn að meðhöndla fólk og sinna þeim sem þurfa á innlögn að halda. Við erum kannski ekki að fylgjast svo mikið með þeim sem eru að greinast. Við vitum að það segir ekki alla söguna,“ segir Þórólfur og segist ekki enn vera farinn að huga að því að skila nýjum tillögum til ráðherra. Hann segir að næstu dagar muni sýna fram á hvort þörf verði á því.

- Auglýsing -

Þórólfur segir aðalvandamálið núna vera miklar hópamyndanir og að fólk með einkenni sé á ferðinni.

„Veiran er víðs vegar og það þurfa ekki að vera stórar samkomur til þess að smit greinist. Erum að sjá að fólk með einkenni er víða, í vinnu og annars staðar, og nær að smita marga. Þetta er kannski erfitt núna þegar fólk er bólusett og fær væg einkenni; menn halda sig síður til hlés og fara í sýnatöku,“ segir Þórólfur.

Hann segir að svona breiðist veiran út og hann haldi að hún muni gera það áfram.

„Þetta er svona það sem við erum að horfa upp á í því að lifa með veirunni. Það er svona landslag þar til að ónæmi verður meira í samfélaginu. Þá fer að hægjast á þessu, en hvenær það verður er erfitt að segja.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -