Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir óttast að við séum að missa tökin á kórónuveirufaraldrinum en á hverjum degi undanfarið hafa hátt í 200 greinst með veiruna og þrír að leggja inn á spítala. Aldrei hafa fleiri börn verið í eftirliti hjá Covid-göngudeildinni og Þórólfur undirbýr nýtt minnisblað til heilbrigðisráðherra.
Alls 324 börn eru nú í eftirliti á Covid-göngudeild Landspítalans. Nú eru alls fimmtán sjúklingar inniliggjandi á spítalanum með Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu og allir í öndunarvél. Einn er á bráðageðdeild og ellefu á smitsjúkdómadeild.
Spítalinn sendir nú út sérstakt ákall til þeirra sem búa yfir hæfni til starfa á gjörgæsludeildum. Biðlað er til þeirra aðila að skrá sig á bakvarðalista. Þórólfur er ekki sá eini sem vill herða aðgerðir strax því undir það tekur Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, sem horfir upp á smitsjúkdómadeild spítalans fyllast.
„Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni og þessum veldisvexti sem er í greiningunum og þeirri stöðu sem við sjáum að við erum svona að missa tökin víða á faraldrinum eins og hann er og þá er í raun og veru ekki, að mínu mati, nema um eitt að ræða það er að reyna að herða tökin og reyna að beita þeim ráðum sem við höfum beitt áður til þess að ná smitunum niður í samfélaginu og það verður ekki gert nema með takmörkunum. Mér finnst þróunin vera slæm og ég held að það þurfi að gera eitthvað áður en við siglum í strand,“ sagði Þórólfur í samtali við Vísi.