Þorsteinn Ingimarsson kemur fram í tveimur af jólabókum ársins en hann var hársbreidd frá því að týna lífinu þegar Bjarmi VE-66 sökk á leið sinni til hafnar í Vestmannaeyjum árið 2002, en tveir af fjögurra manna áhöfn létust í slysinu.
Atburðirnir gerðust í níu stiga frosti og brælu í febrúar en þegar skipið hóf að síða á hliðina var Þorsteinn í káetu að horfa á spennuþátt. Skarkali frá brotnandi leirtaui varð til þess að félagar hans fór að athuga málið en Þorsteinn ákvað að halda kyrru fyrir. Í fyrstu sinnti hann ekki köllum skipsfélaga sinna því atriðið sem hann var að horfa á var spennandi en stökk á fætur þegar þeir öskruðu á hann:
„Steini, komdu núna!“
Í íþróttabuxum og hlýrabol rauk hann af stað upp á dekk en strax þá var mikið magn sjávar farið að flæða inn í skipið. Hefði hann beðið nokkrum sekúndum lengur hefði hann farist með skipinu.
Þeir komust í björgunarbátinn en þar sem illa gekk að finna hníf til að skera bátinn frá barðist hann við mastrið á sökkvandi skipinu sem varð til þess að það kom gat á hann og við tók barátta við að koma sér einn af öðrum út um eina opið á honum.
Við tók nístings gaddur, kaldur sjórinn og löng bið eftir björgun.
Í viðtalinu lýsir Þorsteinn meðal annars tímanum í sjónum.
„Á endanum hættum við að tala til að spara orku. Fyrst verður þetta rosalega kalt, síðan dofnar maður með tímanum og síðan verður maður syfjaðri og syfjaðri. Maður var alltaf að reyna halda sér vakandi. Maður var bara „Minn tími er ekki kominn,“ ég ætlaði að þrauka þetta af. Við vorum eiginlega búnir að sætta okkur við þetta að þetta væri búið, á endanum. Það var engin hjálp á leiðinni, greinilega. Enda vorum við þarna í tvo og hálfan tíma ofan í,“ sagði Þorsteinn um málið.
„Ég var hræddur við að deyja, ég vildi ekki deyja. Ég var í blóma lífsins, nýbúinn að kaupa mér íbúð og ég átti alla framtíðina fyrir mér þannig að það var ekki tími fyrir að deyja þarna.“
Þáttinn má sjá í heild sinni hér á hlaðvarpsveitu Mannlífs.