Maðurinn sem banaði eiginkonu sinni á Akureyri þann 22. apríl heitir Þorsteinn Hermann Þorbjörnsson en DV greinir frá þessu. Þorsteinn var dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir brot í nánu sambandi og stórfellda líkamsárás fyrr í mánuðinum.
Upphaflega var Þorsteinn einnig ákærður fyrir manndráp en hlaut ekki dóm fyrir það. Hann átti tvo syni með eiginkonu sinni og voru þeim hvorum dæmdar fjórar milljónir í miskabætur. Þá þarf hann einnig að borga útfararkostnað, sakarkostnað og málskostnað.
Þorsteinn neitaði sök og sagði eiginkonu sína hafa dottið og látist í kjölfarið. Synir fólksins sögðu fyrir dómi að Þorsteinn hafi beitt eiginkonu sína heimilisofbeldi árum saman. „Ástandið hafi verið ömurlegt og gott að þessu skuli vera lokið. Þetta hafi ekki verið neitt líf hjá brotaþola,“ segir annar sonurinn í dóminum.
Dómurinn vonbrigði
Þegar greint var upphaflega frá dómnum var harðlega gagnrýnt að Þorsteinn hafi ekki verið dæmdur fyrir manndráp og lýsti Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, yfir vonbrigðum sínum í viðtali við Vísi.
„Við erum alltaf að reyna að berjast fyrir því að við séum að senda skilaboð út í samfélagið um að heimilisofbeldi og kvennamorð séu á sama stað og önnur morð, annað ofbeldi. Fyrr erum við ekkert að fara að vinna þessa baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.“