Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Íslands, er ekki hrifinn vörn Jón Gunnarssonar þegar upp komst um að sonur hans hafði verið tekinn upp í leyni að lýsa hvernig faðir sinn myndi tryggja að hvalveiðar myndu hefjast inn skamms.
„Matvælaráðherra í starfsstjórn skipaði Jón Gunnarsson alþingismann og fyrrum ráðherra í stöðu pólitísks aðstoðarmanns.
Talsmenn annarra flokka hafa ekki dregið það inn í kosningabaráttuna. Væntanlega hafa þeir litið svo á að önnur mál væru mikilvægari.
En stundum velta litlar þúfur þungu hlassi,“ skrifar Þorsteinn um málið á DV.
Heimildin í rétti
Þorsteinn segir að starfsstjórn hafi ekki umboð til að taka pólitískar ákvarðanir. Það sé hlutverk aðstoðarmanns að hafa með undirbúningi pólitískra ákvarðana en þær séu ekki teknar á meðan starfsstjórn situr.
„Þunga hlassið í málinu er hins vegar tálbeituleikur erlendra einkarannsakenda, sem hófst reyndar áður en ákvörðun um pólitískan aðstoðarmann í starfsstjórn var tekin. Sú blekkingaraðgerð beindist gegn fasteignasala, sem reyndar er sonur aðstoðarmannsins.
Upplýsingar sem fasteignasalinn gaf tálbeitunni hafa nú verið birtar.
Löngu er viðurkennt að fjölmiðlar geta birt efni sem þeim berst þótt það hafi upprunalega verið fengið með ólögmætum hætti ef það þykir eiga erindi til almennings.
Slík mál hafa bæði snúist um það hvort blaðamenn þyrftu að upplýsa um heimildarmenn og eins hvort þeir væru meðsekir með því að birta efni sem leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Vandaðir fjölmiðlar eins RÚV og Morgunblaðið og blaða- og fréttamenn þeirra hafa nokkrum sinnum hrundið tilraunum ákæruvaldsins og Fjármálaeftirlitsins í málum af þessu tagi,“ heldur forsætisráðherrann fyrrverandi áfram.
Trúverðug heimild
Þorsteinn segir að annað hvort hafi Gunnar, sonur Jóns, verið að segja satt vegna fjölskyldutengsla eða ljúga upp á forsætisráðherra og föður sinn og ekki liggi ennþá fyrir hvort sé satt. Hins vegar má ætla að sonur Jón sé trúverðug heimild.
„Aðstoðarmaðurinn hefur sagt í fjölmiðlum að málið sé aðför að lýðræðinu í landinu. Hér gæti hann verið að rugla saman tveimur mismunandi hlutum.
Þekkt er að erlendar ríkisstjórnir, einkum Rússar og Kínverjar, beita nútíma tækni til að miðla villandi upplýsingum í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningar eða grafa undan trúverðugleika stjórnmálamanna.
Í þessu tilviki er hins vegar um gamaldags tálbeituaðferð að ræða þar sem fjölskyldumeðlimur greinir undir málsverði á góðu hóteli frá hlutum, sem fram fóru að tjaldabaki. Hvort sem hann sagði satt eða laug virðast upplýsingar hans falla undir þær skilgreiningar laga og dómstóla um efni, sem á erindi við almenning.
Aðferðin við að afla upplýsinganna getur verið ólögmæt en birting þeirra lögmæt. Í því ljósi er langsótt að tala um aðför að lýðræðinu,“ skrifar Þorsteinn svo í lokin.