Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Hamfarirnar í Súðavík: Heimiliskötturinn trylltist áður en höggbylgjan skall á húsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árla morguns mánudaginn 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið í Súðavík á meðan flestir voru í fastasvefni. Í blindbyl og svartamyrkri hófu heimamenn leit að sínum nánustu, ættingjum og vinum við hrikalegar aðstæður.

Í bók Egils St. Fjeldsted Þrekvirki er rætt við 40 manns sem annað hvort voru á heimilum sínum þegar flóðin skullu á þeim eða tóku þátt í björgunarstörfum með einhverjum hætti. Í þessum spegli verður sögð saga þeirra sem bjuggu við Túngötu 4 í Súðavík á þeim tíma sem flóðið féll.

Túngata 12

„Hjónin Anna Jóhanna Gísladóttir (1949–2001) og Þráinn Ágúst Garðarsson (1946) bjuggu þar með dóttur sinni Hjördísi (1981). Þráinn var kokkur um borð í rækjuskipinu Haffara ÍS, sem var væntanlegur til hafnar síðar um morguninn. Gestkomandi var Sigríður Kristjana Vagnsdóttir (1920–2007), móðir Önnu.

Þessi helgi var eins og flestar aðrar yfir vetrarmánuðina, nema að því leyti að sunnudaginn 15. janúar átti Hjördís 14 ára afmæli. Dagurinn var fallegur þegar snjónum kyngdi niður eftir hádegi. Hjördís stóð þá á tröppunum fyrir framan heimili sitt og horfði niður fyrir götuna í átt að Túngötu 7. Fyrir utan húsið stóð Bella Aðalheiður Vestfjörð (1955–1995), móðir Petreu Vestfjörð Valsdóttur (1982–1995) bestu vinkonu Hjördísar, sem óskaði henni til hamingju með daginn.

Í glettni sagði hún: „Þú ferð bráðum að ná mér“. Örlögin urðu á þann veg að 2020 náði Hjördís Bellu Aðalheiði í aldri, því hún var aðeins 39 ára þegar hún lést.

- Auglýsing -

Á uppvaxtarárum Hjördísar í Túngötu 12 ræddu foreldrar hennar oft um að skilgreint snjóflóðahættusvæði væri aðeins örfáa metra fyrir ofan húsið. Í verstu veðrunum, þegar foreldrarnir töldu mikla hættu á snjóflóðum, kom fyrir að fjölskyldan svaf í stofunni sem þau töldu öruggara þar sem hún sneri frá fjallinu.

Rétt fyrir klukkan 06:20 vaknaði Hjördís, fór fram úr rúminu og kveikti loftljósið
áður en hún skreið aftur undir hlýja sængina. Skömmu áður hafði Anna móðir hennar
einnig vaknað þar sem hún hafði áhyggjur af Þráni um borð í Haffara ÍS vegna
veðursins, en báturinn lá í vari undir Grænuhlíð.

Anna var rétt ókomin úr úr þvottahúsinu þegar heimiliskötturinn trylltist, henni til mikillar undrunar. Gekk hún þá að svefnherbergisdyrum Hjördísar sem settist upp í rúminu þegar hún sá móður sína standa í dyragættinni. Um leið heyrðist gífurlegur hávaði og drunur er snjókóf sprakk upp með svefnherbergisgluggunum. Kraftur höggbylgjunnar, á undan snjóflóðinu, var slíkur að amma Hjördísar, sem svaf í næsta herbergi, féll fram úr rúminu.

- Auglýsing -

Andartak leið þar til Hjördís áttaði sig á að snjóflóð hafði fallið á húsið og um leið hljóp hún skelfingu lostin í fang móður sinnar. Ef til vill var það öllum til happs, og kannski lífs, að fyrir ofan húsið var hár skafl sem varð til þess að flóðið fór yfir það og til beggja hliða. Mest hafði þó að segja að húsið stóð í jaðri flóðsins sem varð til þess að snjórinn náði eingöngu að brjóta tvennar hliðardyr og fyllti inngang og þvottahús þar sem Anna hafði staðið rétt áður.

Mæðgurnar þrjár áttuðu sig fljótt á að þær væru fastar inni í húsinu. Rafmagn var á en ekkert símasamband. Reyndu þær fyrst að komast út um þvottahúsið en náðu aðeins að opna litla rifu á dyrunum, sem nægði til að sjá að snjórinn náði nánast upp í loft. Vissu þær að tilgangslaust væri að reyna að komast út um aðaldyrnar, sem undantekningarlaust skóf fyrir í vondum veðrum. Reyndu þær næst að komast út um svaladyrnar að framanverðu en sáu strax að snjóveggur var fyrir þeim. Steig Hjördís þá upp í gluggakistu við hliðina á svalahurðinni og náði að opna lítið opnanlegt fag efst á stofuglugganum. Út um það náði hún að greina ljóstíru í húsi fyrir neðan götuna um leið og hún hrópaði á hjálp. Gekk það þannig um tíma þar til hún sá glitta í mann í sortanum sem var að moka við nálægt hús.

Hann varð ekki var við hrópin vegna veðurofsans og vélsleðahjálms sem hann bar á höfðinu. Leið smátími þar til hún sá annan mann koma gangandi í gegnum flóðasvæðið á Túngötu í átt að heimili hennar. Hrópaði hún af öllum lífs og sálar kröftum í átt að honum sem varð til þess að hann tók eftir henni. Reyndist þetta vera Gunnar Finnsson hreppstjóri, sem bjó á Túngötu 18, en hann gekk á milli húsa og athugaði ástand íbúanna. Þegar hann sá að ekkert amaði að mæðgunum fór hann að næsta húsi fyrir innan, Túngötu 14.

Hjónin Barði Ingibjartsson (1955) og Oddný Elínborg Bergsdóttir (1960) bjuggu þar ásamt þremur börnum. Oddný Elínborg hafði vaknað upp við högg um klukkan 06:20, sem líktist helst hávaða þegar snjófleki fellur fram af húsþaki. Lágu þau enn í hjónarúminu þegar Gunnar bankaði á gluggann hjá þeim. Þegar hann var búinn að upplýsa þau um stöðuna, eins langt og vitneskja hans náði á þessum tíma, bað hann Barða að hjálpa mæðgunum og hélt síðan áfram sinni för. Barði fór rakleitt yfir að húsinu þar sem Hjördís stóð enn í glugganum og hóf að moka frá svalahurðinni. Á meðan var eiginkona hans heima og undirbjó börnin til að yfirgefa heimilið.

Um leið og nægilega stór rifa myndaðist í dyragættinni tók Hjördís eftir að móðir hennar stakk höfðinu út og spurði Barða að einhverju sem hún greindi ekki. Svarið heyrði hún hins vegar nokkurn veginn og var það á þessa leið: „Nei, allt er farið“. Brá Hjördísi við þessi orð. Taldi hún víst að næsta hús við hliðina, Túngata 10, hefði orðið fyrir flóðinu.

Á meðan Barði kláraði að moka frá svalahurðinni tíndu þær saman léttan sumarklæðnað sem þær fundu. Allur hlýr vetrarfatnaður var grafinn í þvottahúsinu þar sem fjölskyldan gekk um daglega og eina yfirhöfnin sem Hjördís fann var alltof stór regnjakki af föður hennar. Þegar mæðgurnar komu út á pallinn fyrir framan húsið leit Hjördís út eftir götunni, í átt að Túngötu 10. Blasti þar við henni jaðar snjóflóðsins, sem minnti helst á þverhnípt bjarg á milli húsanna.

Eftir stutt stopp á heimili Barða og Oddnýjar Elínborgar fór allur hópurinn saman niður í Hraðfrystihúsið Frosta. Til að komast þangað fóru þau fyrst niður Grímsbrekku og þaðan inn á Aðalgötu, þar sem þau gengu fram á stórskemmdan bíl í eigu Berglindar Maríu Kristjánsdóttur og Hafsteins Númasonar. Hjördísi varð starsýnt á bílinn og byrjaði hún þá fyrst að átta sig á að eitthvað alvarlegt hefði gerst.

Á sama tíma var hún efins því allt sem hún hafði séð áður var of óraunverulegt til að það gæti verið satt. Hugsaði hún með sér að kannski væri þetta ekki svo alvarlegt, ef til vill hefðu eingöngu lausamunir farið með flóðinu. Þessar sakleysislegu hugsanir áttu eftir að breytast er hún kom í hraðfrystihúsið.“

Byggt undir brattri hlíð

„Heimildum ber ekki saman um hvort eitt eða tvö snjóflóð hafi fallið með stuttu millibili á þorpið og sama gildir um tímasetningu. Kemur þar einkum þrennt til.

Í fyrsta lagi stöðvaðist veggklukka í Pósti og síma við Aðalgötu klukkan 06:17, þegar hún féll niður um leið og snjóflóðið kom á húsið.

Í öðru lagi tók Elvar Ragnarsson vélstjóri eftir tveimur truflunum sem komu fram á mælum á raforkukerfi varaaflsstöðvar Súðavíkur með nokkurra sekúnda millibili um klukkan 06:20.

Í þriðja lagi taldi Snorri Edvin Hermannsson (1934–2020) vettvangsstjóri aðgerða í Súðavík sig sjá merki um að tvö flóð hefðu fallið með stuttu millibili. Rökstuddi hann tilgátuna á þann veg að þegar snjóflóð féll á sumarbústaðabyggðina í Tungudal á Ísafirði veturinn 1994 hafi sumarbústaðirnir í innri hluta flóðsins sprungið í smátt og húsþökin borist í heilu lagi langa vegalengd.

Sumarhúsin í ytri hluta flóðsins færðust hins vegar nánast í heilu lagi tugi metra frá grunni sínum. Í Súðavík hafi mátt sjá sambærilegt mynstur. Innri hluti flóðsins virtist hafa fallið á undan með þeim afleiðingum að húsin tættust í sundur um leið og húsþökin lyftust upp og féllu síðan niður í heilu lagi. Benti þetta til að á undan snjómassanum niður hlíðina hafi verið mikill loftþrýstingur. Í ytri hluta flóðsins hefði snjómassinn hins vegar lagt húsin saman og fyllt þau af snjó.

Hér verður hvorki skorið úr um hvort snjóflóðin voru eitt eða tvö né nákvæmlega hvað klukkan var þegar þessi örlagaríki atburður gerðist. Í fjölmörgum heimildum, eins og til dæmis á stóru upplýsingaskilti um snjóflóðið við hliðina á gamla pósthúsinu í Súðavík, er miðað við 06:20 og því verður stuðst við þá tímasetningu.

Vegna stórhríðar sem stóð yfir sleitulaust til fimmtudags var ekki hægt að kanna upptök snjóflóðsins en talið er líklegt að hengjur hafi fallið úr fjallsbrúninni, og klettum neðan hennar, sem komið hafi af stað fleka neðar í hlíðinni.

Áætluð lengd flóðsins var um 1.200 metrar, breiddin um 400 metrar og snjómassinn um 80.000 rúmmetrar. Samkvæmt reiknilíkani, sem var gert fljótlega eftir að flóðið féll, náði það rúmlega 150 kílómetra hámarkshraða í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Talið er að dregið hafi úr hraðanum og flóðið hafi verið á 65 kílómetra hraða þegar það skall á efstu húsunum við Túngötu og Nesveg.“

Ekki gleyma því sem gerðist

Í formála bókarinnar talar Egill um þá hugmynd að rita sögu þeirra sem lentu í snjóflóðunum í Súðavík og Reykhólasveit 1995, ásamt hinum viðamiklu björgunaraðgerðum við erfiðustu aðstæður sem hugsast getur. Hugmyndin hafði fylgt honum í allnokkurn tíma.

„Eftir að hafa gefið út bók um Krapaflóðin á Patreksfirði 1983 sem kom út 2020, og fundið fyrir þakklæti frá þeim sem í þeim lentu, óx mér ásmegin að hefja ritun sögu þeirra atburða sem hér er fjallað um um.

Það má nefnilega ekki gleyma því sem gerðist í þessum miklu náttúruhamförum og því gríðarlega þrekvirki sem björgunarmenn unnu við óheyrilega erfiðar aðstæður.“

Hægt er fræðast nánar um atburðina í bók Egils sem heitir Þrekvirki. Bókin prýðir fjölda mynda og er hægt að nálgast hana í helstu bókabúðum og hjá höfundi – sjá fésbókartengil.

 

Heimild:

Egill St. Fjeldsted. 2021. Þrekvirki. Egill St. Fjeldsted. Reykjavík.

Ópr. Endurminningar Snorra Edvins Hermannssonar.

Snjóflóð 1995, Skýrsla um snjóflóðin í Súðavík og Reykhólasveit í janúar 1995, bls. 8.

Viðtal. Höfundur við Hjördísi Þráinsdóttur, 17. júní 2021.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -