„Þú verður að prófa þetta,“ sagði móðir Þrastar Leó um leiklistarnámið en segir hann frá því hvernig leiklistarferillinn hófst í nýju tímariti Mannlífs. Í kjölfarið lá leið hans á námskeið hjá Helga Skúlasyni leikara. Eftir nokkrar kennslustundir var kennaranum orðið ljóst að Þröstur hafði hæfileika á þessu sviði. Helgi hvatti hann til þess að fara í Leiklistarskólann líkt og allir þeir sem voru með honum í tímunum. Þröstur var ekki sannfærður, en Helga tókst að lokum að ýta honum í skólann.
„Þá þurfti maður að læra einhvern mónólog og flytja fyrir nefndina. Ég vissi ekkert um leiklist og hafði ekki farið í leikhús, nema kannski eina sýningu. Hann sagði mér þá að hann væri með verkefni handa mér. Það var Húsvörðurinn eftir Harold Pinter.“
Þröstur fékk afhent blað með texta sem hann átti að læra utan að. Nokkrum dögum síðar skyldi hann mæta í prufu. Verkefnið óx honum svo í augum að hann hringdi í Helga, sem var á þessum tíma að leika í Þjóðleikhúsinu. „Ég sagði honum að ég ætlaði að hætta við þetta því ég vissi ekkert. Ég kunni ekkert að leika og vissi ekki um hvað þetta var. Hann sagði mér þá að koma niður í leikhús, fór yfir þetta allt með mér í hádeginu og sagði að ég ætti að gera þetta svona,“ segir sagði Þröstur, sem sló til og komst áfram í fyrri hlutann. Fimm dögum síðar hafði fækkað í hópnum og endaði það með því að Þröstur komst inn. Viðtalið við Þröst má lesa í heild sinni hér.