Áramótapistill sem Bjarnólfur Lárusson, formaður Þróttar, ritaði á dögunum hefur heldur betur vakið athygli en í honum fjallar formaðurinn um áætlun Reykjavíkurborgar að byggja safnskóla á svæði félagsins en að sögn hans var ekkert samráð haft við félagið um málið og þá hafi borgin ekki heimild til að byggja skólann á svæði félagsins án aðkomu félagsins.
„Við fögnuðum því á þessu ári að það eru 75 ár eru liðin frá því að þeir Halldór Sigurðsson og Eyjólfur Jónsson, ásamt 35 öðrum kröftugum einstaklingum stofnuðu Knattspyrnufélagið Þrótt. Slík tímamót minna okkur á hvernig félagið hefur verið ómissandi hluti af samfélaginu okkar frá stofnun. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að afmælisgjöf Reykjavíkurborgar til hins mikla og göfuga sjálfboðaliðastarfs Þróttar voru einhliða hótanir um upptöku samningsbundins svæðis félagsins, Þríhyrnings,“ skrifar Bjarnólfur og segir að laganefnd félagsins hafi skoðað málið rækilega.
„Niðurstaða laganefndar er skýr, að tillaga að staðsetningu unglingaskóla milli gervigrasvallar og skautahallarinnar byggir á þeirri röngu forsendu að umrætt svæði, þ.e. Þríhyrningurinn, sé við hlið íþróttasvæðis Þróttar en ekki á íþróttasvæði félagsins. Með samningi Þróttar og Reykjavíkurborgar frá 12. desember 1996, um flutning félagsins úr Sæviðarsundi yfir í Laugardal, lét Reykjavíkurborg Þrótti í té afnota af tilgreindum svæðum, þar á meðal svæðinu milli gervigrasvallar og Skautahallar, þ.e. Þríhyrningi. Samkvæmt samningnum skal Þróttur hafa afnot af þeim svæðum sem um ræðir svo lengi sem félagið starfar í Laugardal. Ekkert í samningi aðila heimilar Reykjavíkurborg einhliða að taka til sín svæði sem látin voru Þrótti í té,“ og fullyrðir Bjarnólfur að Þróttur muni ekki láta svæðið af hendi eins og staðan er í dag.
„Þróttur mun því ekki að óbreyttu gefa íþróttasvæði sitt eftir undir skólalóð.“
Einar hinn óvinsæli
Mannlíf hafði samband Einar Þorsteinsson borgarstjóra til að fá hans álit á orðum formanns Þróttar en Einar hefur verið óvinsælasti maður Laugardals síðan í fyrra eftir að hann sveik áætlun sem borgin hafði gert um skólauppbyggingu í hverfinu í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Einar svaraði ekki fyrirspurn Mannlífs um málið.
Það gerði hins vegar Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
„Ég veit að samtöl áttu sér stað milli borgarinnar og Þróttar um svæðið sem um ræðir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að þar náist farsæl lending,“ sagði Heiða við Mannlíf.
„Reykjavíkurborg hefur fjárfest í aðstöðu fyrir Þrótt utanhúss, bara á síðustu tveimur árum með uppbyggingu Þróttheima þar sem nú eru tveir fyrsta flokks gervigrasvellir og endurbætt aðalvöllinn með nýju gervigrasi. Það ásamt metnaðarfullum fyrirætlunum um löngu tímabæra uppbyggingu fyrir innanhúsíþróttirnar gæti skapað tækifæri fyrir Þrótt og Ármann til að kalla eftir auknu samstarfi við fyrirhugaðan unglingaskóla þar sem hægt væri að leggja meiri áherslu á íþróttir og samstarf við hverfisfélög en áður. Þetta er samtal sem bíður komandi árs.“
„Málaferli hafa ekki komið til tals enda sú uppbygging sem hefur verið og verður alltaf samstarfsverkefni borgarinnar og hverfisfélaganna,“ sagði borgarfulltrúi þegar hún var spurð hvort borgin væri til að standa í málaferli til að fá sínu fram.