Árlegar afborganir af 40 milljón króna óverðtryggðu húsnæðisláni á breytilegum vöxtum gætu hækkað um 300.000 krónur ef nýjasta stýrivaxtahækkun Seðlabankans, sem tilkynnt var um í morgun, skilar sér beint inn í vaxtahækkanir bankanna. Það gerir 25.000 króna hækkun greiðslubyrðar á mánuði. Einstaklingur með slíkt lán þyrfti að þéna um það bil 420.000 krónum meira á ári til þess að mæta hækkunum.
Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um 0,75 prósenta hækkun stýrivaxta. Vextirnir standa nú í 5,5 prósentum og hafa ekki verið hærri í sex ár. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti átta sinnum á rúmu ári og gefið það út að vextir verði hækkaðir áfram eins mikið og þarf til þess að ná verðbólgu niður.
Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa óhikað skilað sér í hækkun breytilegra vaxta hjá viðskiptabönkunum. Það hefur valdið því að greiðslubyrði fólks með óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum hefur jafnvel hækkað um tugi þúsunda.
Fyrir einstakling sem tók 50 milljóna króna óverðtryggt húsnæðislán á lægstu breytilegu vöxtum í byrjun árs 2021, 3,4 prósent, var mánaðarleg afborgun af láninu 190.169 krónur. Á 5,5 prósenta vöxtum er mánaðarleg afborgun komin upp í 256.709 krónur. Hækkunin nemur 66.540 krónum.
Þarft að þéna 420.000 krónum meira
Fyrir einstakling með 40 milljón króna óverðtryggt húsnæðislán á breytilegum vöxtum gæti greiðslubyrði hækkað um 300.000 krónur á árs grundvelli, ef nýjasta stýrivaxtahækkun Seðlabankans skilar sér beint inn í breytilega vexti bankanna. Hingað til hafa viðskiptabankarnir ekki beðið lengi með að hækka vexti sína í kjölfar stýrivaxtahækkana.
Hjá þessum einstaklingi myndi mánaðarleg afborgun því hækka um 25.000 krónur við þessa einu hækkun.
Til þess að mæta þeim hækkunum þyrfti viðkomandi að þéna um það bil 420.000 krónum meira á ári.