Þýski flugherinn er staddur á landinu til æfinga og segja landið fullt af tækifærum.
Sex orrustuþotur og 30 manna flugsveit frá þýska flughernum er stödd á Íslandi til að æfa stríð.
„Undirbúningurinn var nánast fullkominn og við fengum frábæran stuðning frá Landhelgisgæslunni og gestgjöfum okkar í Keflavík,“ sagði Gerd Schnell, þýskur ofursti, í viðtali við mbl.is.
„Við komum hingað með mjög takmarkað magn af búnaði til að öðlast meiri reynslu í því hvernig við getum rekið sex Eurofighter-þotur með aðeins 30 manns og 25 tonn af búnaði. Hingað til hefur framkvæmdin gengið vel, við höfum náð öllum áætluðum flugæfingum.“
„Þetta er eyja umkringd vatni. Hér er hellingur af tækifærum fyrir okkur til að æfa yfir vatni og það er stórt tækifæri fyrir okkur því að lofthelgin er ekki jafn takmörkuð, það er hægt að fljúga hærra og í töluvert minni umferð. Þannig að það er gott fyrir okkur að æfa hér,“ sagði ofurstinn um þau tækifæri sem landið býður upp í heræfingum.
„Við náðum öllum áætluðum flugæfingum. Það verður ekki betra en það. Við náðum einum eða tveimur fleiri flugæfingum en við áætluðum þannig að þetta er góður árangur fyrir okkur.“