Alls gistu átta aðilar fangageymslur lögreglu eftir nóttina, eftir því sem kemur fram í dagbók hennar.
Tilkynning barst lögreglu vegna „æstrar“ konu utan við skemmtistað í miðborginni en henni var vísað á brott og hélt hún sína leið. Einnig barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í bakgarði Alþingis en ekki kemur fram í dagbók lögreglu, hvort einhver hafi verið þar er lögreglu bar að, sem bendir til þess að svo hafi ekki verið.
Þá var hringt í lögregluna vegna einstaklings sem væri hugsanlega vopnaður skotvopni í hverfi 101. Reyndist einstaklingurinn einungis vopnaður ryksugu en hann var að gera helgarþrifin á bifreið sinni.
Tilkynning barst einnig um mann sem var að gefa fólki hvítt duft í poka, án endurgjalds en enginn var á staðnum er lögregluna bar að.
Höfð voru afskipti af fjórum ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis- og/eða fíniefna.