Undanfarnar vikur hefur átt sér stað mikil og hörð umræða í Laugardalnum um tillögu stjórnar Þróttar um að félagið taki upp nýtt merki en núverandi merki Þróttar hefur staðið óhaggað síðan 1980. Nýja merkið, sem er teiknað af hönnunarstofunni Farvi, þykir frekar ólíkt gamla merkinu en rauðar og hvítar rendur félagsins eru horfnar á braut í merkinu sem og svört umgjörð og stafir.
Á aðalfundi sem haldinn var í gær var kosið um hvort taka ætti upp nýtt merki en áður en að kosningu kom hélt Bjarnólfur Lárusson, formaður félagsins, ræðu þar sem hann sagði að sú umræða sem hafi átt sér stað um nýtt merki og stjórnina hafi á köflum verið dónaleg og vonaðist til þess að hægt væri að horfa saman á bjartari tíma. Naumur meirihluti félagsmanna sem tóku þátt í kjörinu samþykktu nýtt merki en til að merkinu yrði breytt þurfti 2/3 félagsmanna á fundinum að samþykkja merkið og var tillagan því felld og gamla merkið lifir áfram.
Þess ber að geta að í könnun sem var gerð meðal stuðningsmanna félagsins, sem 270 manns tóku þátt í, vildu aðeins 25% stuðningsmanna Þróttar að nýja merkið yrði samþykkt en aðeins skráðir félagsmenn gátu tekið þátt í kosningu á aðalfundi félagsins.