Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Timbursali var handtekinn í stærsta fíkniefnamáli Íslands – „Ég hef ekkert við þig að tala, vina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reykvískur timbursali er meintur innflytjandi í stærsta kókaínsmygli Íslands. Umrædd sending barst í gegnum fyrirtæki hans. Efninu hafði verið komið fyrir innan um timburvörur sem fluttar voru inn frá Brasilíu. Fjórir hafa verið handteknir í tengslum við málið. Hinir grunuðu eru ekki þekktir glæpamenn en talið er að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Heimildir Mannlífs herma að starfsemin hafi átt sér stað í áraraðir.

Sendingin fór frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi. Hollenskir tollverðir fundu 100 kíló af kókaíni og létu yfirvöld hér á landi vita. Um er að ræða langstærsta kókaínsmygl sem íslenska lögreglan hefur náð að uppræta. Stærsta smyglið fram að þessu nam 16 kílóum af kókaíni. Reynt var að smygla því í ferðatösku í gegnum Leifsstöð.

Lögreglan fjarlægði kókaínið við komu sendingarinnar til landsins og kom fyrir eftirlíkingu þess. Timbursalinn hófst svo handa við að tæma gáminn og var í kjölfarið handtekinn. Götuvirði efnisins hleypur á himinháum upphæðum.

Meðfylgjandi er mynd af kókaíninu sem fannst í Hollandi. Mynd/logreglan.is

Til mikils að vinna

Samkvæmt heimildum Mannlífs er kílóverð á kókaíni í Brasilíu um þrjú hundruð þúsund krónur og má því áætla að heildsöluverð efnisins hafi verið um það bil þrjátíu milljónir króna. Hingað komið er kílóverðið að lágmarki um 10 milljónir króna. Áætla má því að uppreiknað andvirði sendingarinnar hafi verið í kringum einn milljarð íslenskra króna. Samkvæmt ársreikningi félagsins veltir það innan við 10 milljónum króna á ári eða sem nemur þriðjungi innkaupaverðsins á kókaíninu.

Sonarmissir

- Auglýsing -

Timbursalinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, er ekki þekktur afbrotamaður. Hann hefur gengið í gegnum miklar raunir í einkalífi sínu. Fyrir ári síðan missti hann son sinn. Dánarorsök hans var of stór neysluskammtur.

Reynt var að hafa samband við fyrirtæki timbursalans en slökkt var á farsímanum og enginn til svara. Samkvæmt heimildum Mannlífs heldur hann fram sakleysi sínu. Sambýliskona timbursalans vildi sem minnst um málið segja þegar Mannlíf ræddi við hana. „Ég hef ekkert við þig að tala, vina,“ og sleit því næst samtalinu.

Lögreglan

- Auglýsing -

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins miða vel. „Þeir sem voru handteknir eru í gæsluvarðhaldi, fyrst í 10 daga en því var svo framlengt um fjórar vikur.“ Grímur segir að tekin verði ákvörðun á næstu dögum um áframhaldið. En lögum samkvæmt þarf að ákæra innan tólf vikna frá því að meintir afbrotamenn eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald fyrst. Áætlar Grímur að rannsókninni ljúki einhverjum níu til tíu vikum frá því að mennirnir voru handteknir.

Eftir fyrstu framlengingu á úrskurði um gæsluvarðhald fóru þrír mannanna í áframhaldandi gæsluvarðhald á meðan einn þeirra var sendur í afplánun vegna fyrri brota.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -