Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Tinna Þorvalds Önnudóttir í leikhússpjalli: „Áhorfendur eru svo mikill partur af verkinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tinna Þorvalds Önnudóttir, óperusöngkona og leikari fagnar nú 10 ára afmæli sviðslistahópsins Spindrift en það er hópur sem samanstendur af konum frá nokkrum Norðurlöndum. Tinna settist niður með Mannlífi og ræddi um Spindrift, Fringe Festival í Skotlandi, sviðslistir og sitt hvað fleira.

Tinna Þorvalds Önnudóttir.
Ljósmynd: Aðsend

„Við erum ekkert smá spenntar,“ svaraði Tinna aðspurð út í hátíðina Fringe Festival sem haldin verður í Skotlandi í ágúst en Spindrift hefur verið boðið að sýna leikverk sitt THEM en alls sýna þær verkið 23 sinnum á hátíðinni sem spannar mánuð. „Það er búinn að vera mikill undirbúningur í gangi. Við erum bæði spenntar fyrir því að vinna mikið og sjá mikið af sýningum, verða fyrir innblæstri. En það er verður alveg magnað að kynnast verkinu á þennan hátt en verkið er alltaf mismunandi eftir áhorfendahópum. Áhorfendur eru svo mikill partur af verkinu og bara alltaf svo mikill partur af leikverkum og listaverkum.“ Aðspurð hvað hún ætti nákvæmlega við svaraði Tinna: „Það hefur svo mikil áhrif á verkið. Stundum er einhvern vegin hljóðlát hlustun í gangi á meðan stundum er í gangi einhver léttleiki og mikill hlátur í gangi, þá verður verkið hálfgerð kómedía. Og það verður mjög áhugavert að kynnast verkinu svona intensíft. Maður kynnist því einhvernveginn í gegnum áhorfendur.“

– Nú á Spindrift-hópurinn 10 ára afmæli en þetta er alþjóðlegur hópur, ekki satt?

„Jú, eða fjölþjóðlegur. Það eru þrjár finnskar konur í hópnum, ein norsk og svo eru þrjár íslenskar.“

– En hvernig kom samstarfið til?

„Fjórar þeirra byrjuðu hópinn en þær voru að læra saman úti í London fyrir 10 árum. Ég kom svo inn 2017 og svo bættust tvær aðrar við fyrir tveimur árum. En svo sá ég verk með þeim sem heitir Caroll: Berserkur þar sem maður gekk í gegnum Undarland og ég uppgötvaði eftir á að við áhorfendur höfðum verið Lísa, Lísa í Undralandi. Og mér fannst þetta svo geggjað verk. Þannig að þegar þær auglýstu eftir leikkonu á Íslandi árið 2017, þá bara sótti ég um og fékk vinnuna. En svo var ég formlega hluti af hópnum 2018 eða 19, man það ekki.“

- Auglýsing -
Spindrift
Ljósmynd: Aðsend

– En þegar þátttöku Spindrift í Fringe-hátíðinni lýkur í Skotlandi, er þá eitthvað fleira á döfinni?

„Já, við erum með nýtt verk í vinnslu en vinnutitillinn er We Could Be Heroes en við erum að skoða hetjudáðir kvenna í gegnum söguna, í gegnum þjóðsögur og bara í gegnum hversdagsleikann líka.“

 

- Auglýsing -

– Þannig að þið eruð í karlaþema í THEM og kvennaþema í We Could Be Heroes?

„Já, það er ágætis athugun,“ svaraði Tinna og hló. „En svo erum líka að fara í samstarf við Útvarpsleikhúsið á RÚV með útvarpsverk á næsta ári.“

– En nú er þetta fjölþjóðlegur leikhópur, eru verkin alltaf flutt á ensku?

„Stundum, THEM er á ensku og Heroes verður sennilega á ensku, aðallega en við leikum okkur kannski eitthvað með tungumálin,“ svaraði Tinna og bætti við að hópurinn starfi á nokkrum starfsstöðum, það sé „íslenska deildin“ og „finnska deildin“ og slíkt en að verkin taki mismikinn tíma í undirbúningi. Nefndi hún sem dæmi að THEM og We Could Be Heroes taki langan tíma í undirbúningi og allur hópurinn sé meira og minna í því ferli en önnur verk taki minni tíma. „Íslenska deildin setti til dæmis upp óperu á síðasta ári á Myrkum músíkdögum, með ljóðum eftir Elísabetu Jökuls og tónlistin var eftir Önnu Halldórsdóttur. Og við vorum eð Júlíu Mogensen með okkur á selló. Þetta var bara ein rödd og eitt selló,“ sagði Tinna en hún er einmitt sú rödd en hún er menntuð óperusöngkona. „Útvarpsleikritið verður á íslensku en við munu svo líklega þýða það og þær svo flytja það í Finnlandi, sem sagt á finnsku. Finnska deildin hefur líka verið með sýningu sem er í gangi núna síðustu mánuði en það er sem sagt á finnsku en við munum svo örugglega þýða það yfir á íslensku og sýna hér.“

– Það er sniðugt að vera með nokkrar deildir og þurfa ekki að treysta á að allur hópurinn komist, þegar þið búið í mismunandi löndum.

„Einmitt. Og þetta er svolítið svona flæði og sum verkefni eru einhvern veginn stór og þung í vöfum, sem er bara í lagi, en þau eru hæg meltandi en önnur minni og léttari.“

Tinna
Ljósmynd: Aðsend

– Nú er þekkt í borgum eins og Berlín, sem er mikil listamannaborg, svokallaðar leikhúsupplifanir, þar sem sviðslistahópar eru kannski ekki endilega að sýna leikrit, með söguþræði, upphafi, miðju og enda, heldur meira upplifanir. Er Spindrift eitthvað að snerta á þessu formi sviðslistar eða er alltaf um að ræða hefðbundin leikverk?

„Já, til dæmis Caroll: Berserkur, sem ég tók ekki þátt í að gera en fór að sjá, þar var meira svona eins og þú talar um, leikhúsupplifun því það var ekki ein saga, áhorfendahópnum var skipt í hópa og maður fór á milli. Þar voru allir krókar og kimar Tjarnarbíós notaðir, meðal annars undir stiganum, uppi á bak við og víðar. Og verkið sem þær eru að setja upp í Finnlandi er ekki endilega með upphaf og enda en draumurinn hjá okkur varðandi það verk er að bæta við fullt af fólki og hafa heilt hús, fullt af karakterum.“ Segir Tinna að nýlega hafi komið út bók í Finnlandi sem á ensku myndi heita Extraordinary Women of History en finnsku stallsystur hennar völdu nokkrar konur úr þeirri bók til að kynna í verkinu.
„En svo er THEM meira hefðbundið verk, ekki kannski einn söguþráður en upphaf, miðja og endir.“

Talið barst aftur til Berlínar en þar hefur verið afar lifandi og fersk leikhúsmenning í gangi um langt skeið.

„Ég man eftir að hafa verið í Berlín fyrir mörgum árum og það var ekki svo dýrt að fara í leikhús, það virtist vera einhvern veginn sjálfsagður partur af lífinu. Og þá var opið fyrir almenning því þegar leikhúsmiðinn kostar fúlgur fjár, þá er þetta ekki fyrir alla. Þá er þetta ekki samtal við samfélagið, heldur bara samtal við einn afmarkaðan hóp. Samtal við samfélagið er miklu áhugaverðara, þegar þröskuldurinn til að búa til verk er ekki svo hár, og þröskuldurinn til að fara að sjá verk er ekki svo hár. Þá verður þetta ekki eitthvað fínt sem sumt fólk gerir heldur bara eitthvað eins og að kveikja á Netflix. Það býr til áhugavert samfélag, skulum við segja. Og þá verður fólk líka opnara fyrir að sjá allskonar. Ef fólk er að fara í leikhús einu sinni til tvisvar á ári, þá fer það á eitthvað sem það veit að það mun njóta og tekur engar áhættur. Og þegar fólk er búið að læra á miðilinn er almenningur meira tilbúinn að sjá eitthvað öðruvísi.“

Mannlíf óskar Tinnu og Spindrift til lukku með árin 10 og hlakkar til að fylgjast með framhaldinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -