Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.
Það var ekki bara efnahagur Íslands sem tók stakkaskiptum við efnahagshrunið. Öll samfélagsgerðin breyttist. Það sem áður þótti sjálfsögð neysluhegðun varð skyndilega litin hornauga og nýjar stefnur og straumar tóku yfir. Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá falli íslensku bankanna rifjar Mannlíf upp helstu tískustrauma eftirhrunsáranna.
Prjónaskapur og hannyrðir
Vinsældir prjónaskapar og hvers kyns hannyrða jukust gríðarlega eftir hrun. Líkt og áður fyrr voru saumaklúbbar orðnir vettvangur handavinnu í stað Tupperware- og hjálpartækjakynninga. Garn og prjónatímarit seldust í bílförmum og víðs vegar um land opnuðu litlar prjónabúðir. Eitt hitamálið eftir hrun var þegar upplýst var að íslenska lopapeysan, sem naut mikilla vinsælda eftir hrun, var í raun og veru prjónuð í Kína en seld sem íslensk hönnun án nokkurra upprunavottorða.
Hamstur
Mitt í allri ringulreiðinni sem fylgdi hruni bankanna var greint frá mögulegum vöruskorti í landinu ef ske kynni að greiðsluþrotið yrði algjört. Margir tóku þá til við að hamstra mat úr verslunum, jafnvel matvörum sem engum hefði dottið í hug að láta inn fyrir sínar varir nokkrum vikum fyrr. Aldrei kom til vöruskorts og því ekki ólíklegt að einhverjir eigi enn lager af niðursoðnum fiskbúðingi eða Campbell´s-súpum uppi í skáp hjá sér.
Lopapeysa og Mugison
Við hrunið leituðu broddborgarar landsins sér að jarðtengingu og fundu hana í lopapeysunni sem varð á skömmum tíma einkennisklæðnaður íslensku þjóðarinnar og leysti þar með jakkafötin af hólmi. Allt íslenskt varð meginstreymis og skyndilega var Mugison orðinn að ofurstjörnu sem ítrekað troðfyllti Hörpu, enda íslenskari listamaður vandfundinn. Mugison var hipsterinn holdi klæddur og í kjölfarið mátti sjá karlmenn úr öllum lögum samfélagsins skarta þykku og miklu skeggi.
Góði hirðirinn
Góði hirðirinn sem selur notaða muni varð ein vinsælasta verslun landsins eftir hrun. Biðraðir mynduðust fyrir utan verslunina skömmu fyrir hádegi þegar nýjar vörur voru teknar inn og var hreinlega barist um bestu bitana. Nú er öldin önnur því endurvinnslustöðvar Sorpu eru smekkfullar og Góði hirðirinn hefur neyðst til að afþakka muni því að þeir seljast ekki. Nýverið hefur meira að segja borið á kvörtunum yfir háu verðlagi í Góða hirðinum og honum jafnvel líkt við Epal.
Framboð
Fjölmargir töldu sig eiga erindi í áhrifastöður eftir hrun, en líkt og svo oft áður var framboðið langt umfram eftirspurnina. Þannig voru 14 stjórnmálaflokkar og Sturla Jónsson í framboði til þings árið 2013. Þá eru ónefndar þær hreyfingar sem ætluðu í framboð en hættu við þegar ljóst var að stemningin var engin. Tvöfaldar kappræður og stórir kjörseðlar eru orðin venjan fremur en undantekningin. Kosningarnar til stjórnlagaþings voru svo sérkapítuli út af fyrir sig þar sem 522 börðust um sætin 25 sem voru í boði. Einn frambjóðandi hlaut eitt atkvæði, væntanlega sitt eigið.
Lukkuriddarar
Lukkuriddarnarnir létu ekki eingöngu til sín taka á stjórnmálasviðinu, heldur einnig í viðskiptalífinu. Margar brjálaðar hugmyndir voru á sveimi fyrir hrun og þótt þeim hafi kannski fækkað eftir hrun, þá voru þær allt eins brjálaðar og tóku á sig aðra mynd – iðulega í tilfelli dularfullra útlendra auðmanna sem ætluðu að nota dýrmætan gjaldeyri til að skapa haug af störfum. Nærtæk dæmi eru hugmyndir um 200 milljarða fjárfestingu ECA Programs sem ætlaði að þjálfa herflugmenn á Keflavíkurflugvelli en reyndist þegar á botninn var hvolft skýjaborgir einar. Eða þegar fyrirtæki að nafni Northern Lights Energy reyndi að fá íslenskan ríkisborgararétt fyrir tíu kanadíska auðmenn í gegnum Alþingi.
Náttúruhobbí
Íslendingar eru miklar hópsálir. Þegar nágranninn kaupir sér græju þarf Íslendingurinn að eignast eins græju, ef til vill eilítið dýrari. Þetta á líka við um áhugamálin. Eftir hrunið þótti ekki fínt að svitna inni í líkamsræktarstöðvum, allra síst þeim sem voru tengdar áberandi persónum í viðskiptalífinu. Og áhugamálin urðu fínni eftir því sem tengslin við náttúruna voru meiri. Allra fínast þótti sjósundið sem eingöngu sérvitringar höfðu stundað fyrir hrun, svo fóru allir að hlaupa og það jafngilti nánast úrsögn úr samfélaginu að birta ekki sjálfu úr Reykjavíkurmaraþoni. Svo þegar efnahagurinn vænkaðist eilítið hoppaði hjörðin í gult spandex og upp á racer-hjólin.
Einfaldur og þjóðlegur matur
Við hrunið þótti skyndilega óviðeigandi að sáldra gullryki yfir matinn sinn eða bjóða upp á prjál eins og prosciutto eða carpaccio. Og að skála í kampavíni varð algjört tabú. Einfaldleikinn tók yfir og skyndilega var ólíklegasta fólk farið að taka slátur og borða innmat. Bjúgu og hamsatólg varð annað og meira en bara mötuneytis-/iðnaðarmannafæða. Þessi bylgja hvarf þó fljótt með túristasprengjunni þegar nýmóðins veitingastaðir spruttu upp eins og gorkúlur. Sölutölur Vínbúðarinnar sýna að þjóðin skálar í sjampói eins og árið 2007 og hver einasta búlla skreytir sig með orðinu „mathöll“. Þegar kjúklingastaðurinn í Suðurveri fer að kalla sig Suðurver mathöll, þá er næsta hrun handan við hornið.