Þriðjudagur 5. nóvember, 2024
10.7 C
Reykjavik

Tíu ára drengur hljóp á ungling á reiðhjóli og féll í götuna – Seinna um kvöldið var hann allur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn tíu ára gamli Guðmundur Ólafsson var algjörlega grunlaus að þessi síðsumardagur, 25. ágúst, væri hans síðasti í þessu jarðlífi. Hann hafði verið á göngu í miðbæ Reykjavíkur er hann rakst á dreng sem var vanur að leggja hann í einelti með hrekkjum. Hljóp hann því undan honum út Veltusundið en þegar hann kom að horninu á Austurstræti gerðist nokkuð sem aldrei hafði gerst áður á Íslandi þó það hafi ekki komið í ljós fyrr en seinna um kvöldið. Guðmundur rakst af fullum þunga á unglingspilt sem kom hjólandi eftir Austurstræti. Duttu þeir báðir við áreksturinn en Guðmundur skalla aftur fyrir sig á götuna. Eftir að hafa jafnað sig í nærliggjandi verslun og fengið vatnsglas fór sá stutti heim á leið og virtist lítið vera að honum. Klukkan 23 var hann hins vegar allur. Slysið gerðist árið 1915 og var fyrsta banaslysið í umferð í Íslandssögunni.

Vísir sagði svo frá þessum hryggilega atburði:

Sorglegt slys vildi til hér í bænum í gærkveldi. 

Tíu ára gamall drengur, Guðmundur Ólafsson frá Baldursgötu 1, hljóp út Veltusund undan öðrum dreng, sem ætlaði að hrekkja hann. En á horninu á Austurstræti rakst hann á pilt, sem kom á hjóli eftir Austurstræti. Pilturinn á hjólinu hafði verið á hægri ferð, en hraðinn á Guðm. var svo mikill, að við áreksturinn duttu þeir báðir, og skall Guðmundur aftur á bak á götuna. Pilturinn, sem á hjólinu var, studdi nú Guðmund inn í búð Ragnars Levis, og var hann látinn fara þar upp á loft til að jafna sig. Náði hann sér nú brátt svo, að hann vildi fara heim til sín. Bar þá orðið ekkert á því, að neitt alvarlegt væri á ferðum. — Hann hafði ekki mist meðvitundina og aðeins einu sinni haft orð á því, að sér væri að verða ilt, og búist við því, að kasta upp, en það leið frá, er hann fékk vatn að drekka. Fór hann nú heim til sín og annar lítill drengur með honum. 

Þegar heim var komið, var Sæm. prófessor Bjarnhéðinsson sóttur og var honum sagt, að liðið hefði yfir drenginn og að hann hefði kastað upp. Af því réði Sæm. það, að um heilahristing væri að ræða, en í litlum stíl þó, því að drengurinn var allhress að sjá, talaði eðlilega og kendi sér eiginlega einskis meins. Áleit Sæmundur því, að engin hætta væri á ferðum, en ráðlagði bakstra við höfuðið. Þetta var um kl. 8 í gærkveldi, en kl. II var drengurinn dáinn. Vér höfum átt tal við próf. Sæmund og telur hann líklegast, að sprungið hafi æð í höfðinu og blætt í heilann. Óhæti mun að fullyrða að enginn eigi sök á slysi þessu.

- Auglýsing -

Drengurinn fullyrti sjálfur að pilturinn á hjólinu hefði enga sök átt á því, og um það ber öllum sjónarvottum saman. — Helst er ávíttur drengurinn sem elti Guðmund sáluga, og sagt að hann hafi lagt það í vana sinn að hrekkja hann, hvar sem hann náði til hans. En þótt slíkt sé Ijótt, þá er þó ekki rétt að gefa honum sök á slysi þessu.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 7. október 2022.

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -