Mánudagur 6. janúar, 2025
-3.2 C
Reykjavik

Tjón vegna fjárfestasvindls komið upp í hálfan milljarð frá 2017: „Sérhæfðir glæpamenn að störfum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld var fjallað um svokallað fjárfestasvindl, sem hefur færst mikið í aukana síðustu ár. Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður, sagði í þættinum að fjárhæð tjóns úr þess konar svindli sér komið upp í næstum hálfan milljarð hér á landi, frá árinu 2017.

Um er að ræða skipulagða glæpastarfsemi á netinu sem leiðir venjulegt fólk í gildrur, með ýmsum gylliboðum um vænlegar fjárfestingar. Oft birtast svindl af þessu tagi upprunalega sem auglýsingar, sem líta út fyrir að vera fréttir af þekktum fréttamiðlum. Gjarnan má þar sjá þekkta Íslendinga, sem fullyrt er að hafi þénað vel á umræddri fjárfestingu. Ef smellt er á „fréttina“ færast notendur yfirleitt næst inn á síður sem virðast tilheyra hinu og þessu fjárfestingarfyrirtækinu, sem mælt var með í „fréttinni“. Þar geta notendur síðan tekið þátt í umræddri draumafjárfestingu, með því að leggja til svo og svo mikið upphafsfé.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú birt færslu á Facebook-síðu sinni vegna þáttarins, en lögreglan var í samstarfi við Kveik til að vekja athygli á þessum ört vaxandi flokki netglæpa, „sem er einn sá skæðasti í dag“.

Hér að neðan má lesa verknaðaraðferð umræddra svindlara, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt, almenningi til varnar og fræðslu. Þar segir að aðferðin sé oftast sú sama, með nokkrum blæbrigðum.

1. Veiði glæpamannanna:

Auglýsingar á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Þessar auglýsingar gefa til kynna mikinn gróða, oftast með fjárfestingum í rafmynt. Stundum er líka hringt beint í fólk.

- Auglýsing -

2. Brotaþoli leiddur áfram:

Í auglýsingunni er tengill sem leiðir oft á falska síðu sem er látin líta út fyrir að vera íslensk fréttasíða. Þar má sjá myndir af frægum Íslendingum, misnotaðar til að telja fólki trú um að þetta sé raunverulegt.

3. Netsíða „fjárfestafyrirtækis“:

- Auglýsing -

Það þarf ekki mikla kunnáttu til að búa til hvers kyns netsíðu og láta hana líta út fyrir að vera raunverulega. Á slíkum síðum er fólk hvatt til að skrá sig og sína. Síðan er stungið upp á því að fjárfesta fyrir viðráðanlega upphæð, eins og 200 evrur og fara að græða.

4. Fylgt eftir með símhringingum:

Þetta er lykilatriði í svindlinu. Vinalegur „ráðgjafi“ sem heitir þægilegu nafni leggur sig fram við að vera besti þjónustuaðilinn en allt er það hluti af svindlinu. Þegar þeir hafa komið upp traust-sambandi (á ensku kallað con) þá fara þeir að hringja og segja að nú séu frábær tækifæri á markaðnum og hvetja þig til að fjárfesta meira og meira. Í sýndarveruleika heimasíðunnar virðist viðkomandi vera að græða en svo er ekki. Einu peningarnir eru þeir sem þeir eru að stela, engin fjárfesting á sér stað. Þessu tímabili fylgir oft tímabundin vellíðan sem dregur brotaþola enn lengra inn í svindlið.

5. Ný og ný flækjustig:

Hunang og svipa, þeir nota ýmist gullin loforð eða tilkynna að nú sé allt að tapast nema fólk fjárfesti enn meira. Svo koma alls kyns skrýtin gjöld, jafnvel þegar fólk vill fara að fá peninga til baka er þeim sagt að það sé einungis hægt ef það sendir inn greiðslu.

Allt er þetta hluti af svikamyllunni og þeir hætta ekki á meðan það er von á að ná meiri peningum.

6. Nýjar nálganir:

Þegar þetta gengur ekki lengur þá reyna þeir nýjar aðferðir. Hótunarpóstar um að það eigi að handtaka þolendur fyrir þátttöku í svindlinu af því þau tóku þátt í peningaþvætti, nema þau greiði sekt. Eða þeir bíða um tíma og segjast svo vera fyrirtæki sem getur endurheimt peningana, gegn fyrirframgreiðslu auðvitað.

Allt þetta fer mjög illa með brotaþola, sem eru sendir í tilfinningalega rússíbanareið og það til viðbótar við peningana sem búið er að stela af þeim.

Aðferðafræðin er mjög þróuð og glæpamennirnir eru vel skipulagðir. Einstaklingar sem þeir ná að grípa eru að keppa við skipulögð glæpasamtök sem sérhæfa sig í þessu.

Sumir hafa fordóma gangvart brotaþolum í þessum málum. Það er röng nálgun. Svona glæpum fylgir oft mikil skömm hjá brotaþolum en munið að þarna eru sérhæfðir glæpamenn að störfum og hluti vinnu þeirra er að greina þá sem eru líklegri til að falla fyrir þessum glæpum og það eru svindlararnir sem hafa ásetning til að svíkja fé miskunnarlaust út úr fólki. Lögregla vill því brýna að það ætti engin skömm að felast í því að festast í hringiðu fjárfestasvindls.

Endilega hafið samband ef þið haldið að þið eða einhver sem þið þekkið séu brotaþolar í netsvikum í abendingar@lrh.is

(Tekið frá lögreglunni á höfuðborgrasvæðinu)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -