Tómas Guðbjartsson læknir segir að Anna Dora Sæþórsdóttir, fráfarandi forseti Ferðafélagsins, fari með rangt mál í yfirlýsingu sem hún birti í morgun. Í henni tilkynnti Anna Dóra að hún segði af sér sem forseti þar sem hún væri ráðþrota vegna „grófs kynferðislegs ofbeldis“ innan félagsins.
Hún nefndi engin nöfn en Tómas telur ljóst að hann eigi að vera stjórnarmaðurinn sem hafi talaði fyrir því að Helgi Jóhannesson, lögmaður sem hefur ítrekað verið sakaður um kynferðisleg áreitni, fengi að koma aftur í stjórn.
Tómas segir í yfirlýsingu á Facebook að það sé einfaldlega rangt. „Að gefnu tilefni þarf ég að leiðrétta alvarlegar ásakanir í minn garð sem tengjast afsögn fyrrverandi forseta Ferðafélags Íslands, Önnu Dóru Sæþórsdóttur. Ég hef aldrei lagt til að fyrrum stjórnarmaður tæki aftur sæti í stjórn félagsins, hann aldrei óskað eftir slíku, enda nýr stjórnarmaður kosinn í hans stað á síðasta aðalfundi félagsins,“ segir Tómas.
„Sami aðili hafði hins vegar sent stjórn félagsins erindi sl. vor þar sem hann óskaði eftir að fá að útskýra sína hlið á skyndilegu brotthvarfi úr stjórn í nóvember 2021. Taldi ég á stjórnarfundi rétt að erindið fengi formlega umfjöllun stjórnar, sem forseti taldi ekki ástæðu til, en mér falið að koma á óformlegum fundi sem forseti hugðist ekki sækja.“
Að lokum gefur Tómas í skyn að Anna sé að hætta með látum til að breiða yfir eigin vanda. „Viðskilnaður forseta við stjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands er sorglegt mál, ekki síst fyrir Ferðafélag Íslands, þar sem staðreyndum er snúið á hvolf og umræðan færð frá þeim alvarlega samskiptavanda sem litað hefur starf stjórnar sl. ár.“