„Ég þekkti hana áður en ég kom til Íslands. Hún bjó í Noregi og ég kynntist henni í gegnum vin minn og við héldum sambandi áður en hún kom til mín til Íslands,“ segir Tony Omos í viðtali í nýju helgarblaði Mannlífs.

Tony Omos er nafn sem flestir Íslendingar kannast við. Tony er nígeríski hælisleitandinn sem felldi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur úr stóli dómsmálaráðherra árið 2014 vegna „Lekamálsins“ svokallaða. Málið hafði gríðarleg áhrif á Tony Omos og hans fjölskyldu enda var hann saklaus sakaður um mansal og eiturlyfjasölu. Í dag hefur hann byggt upp fallegt heimili með eiginkonu sinni Evelyn Glory í Reykjanesbæ en saman eiga þau þrjú börn. „Hann er sálufélagi minn,“ segir Evelyn brosandi en viðtalið má nálgast í nýju helgarblaði Mannlífs þar sem Tony talar meðal annars um málið fræga, fjölskylduna og vinnuna.