Formaður Bændasamtakanna hefur engar áhyggjur af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska hf. en kaupin voru gerð möguleg með umdeildri lagabreytingu sem samþykkt voru í mars en í þeim eru afurðarstöðvar í kjötiðnaði undanþegnar frá samkeppnislögum. „Markmið frumvarpsins var að ná fram hagræðingu í sláturiðnaði hér á Íslandi og með það að meginmarkmiði að bæta hag neytenda og bænda,“ sagði Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, við mbl.is um málið. „Þetta er löngu tímabært skref, að gefa tækifæri til að lækka framleiðslukostnað á íslenskum matvælum, og kjötvöru í þessu tilfelli. Það á ekki að koma neinum á óvart að það sé gert, til þess var frumvarpið samþykkt á Alþingi.“ Þá telur Trausti að þetta muni ekki hafa áhrif á verðlag á kjötvöru á Íslandi. „Ég geri ekki ráð fyrir því að það muni hækka neitt umfram aðrar vörur á íslenskum markaði. Ég geri ráð fyrir því að verð til bænda lagist án þess að hafa neikvæð áhrif á verð til neytenda.“