Vorboðinn vinsæli í Ármúlanum, tjaldurinn Tryggvi, gerði sér lítið fyrir í morgun og stundaði ástaratlot á bílastæði í Ármúlanum, eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Eins og sjá má á ljósmyndunum hér fyrir neðan eru ástaratlot tjalda töluvert öðruvísi en þau sem við mennirnir stundum eða að minnsta kosti flest okkar. Karltjaldurinn fer sem sagt upp á bak kventjaldsins, þ.e.a.s. hann stendur á baki hennar og reynir að frjóvga hana á meðan hún stendur róleg í lappirnar löngu.
Mannlíf ræddi við tjaldasérfræðinginn Sölva Rúnar Vignisson sem staðfesti að um ástaratlot væri að ræða en ekki acro-jóga. „Já, þetta er aðferðin þeirra, sá sem fór upp á er karlfuglinn.“ Aðspurður hvort tjaldar séu ekki feimnari en svo að gera þetta fyrir framan gesti og gangandi svaraði Sölvi: „Já,já, ég hef meira að segja séð á mínu rannsóknarsvæði, en ég þekki einstaklingana þar í sundur, þá hef ég séð þá vera að lumast inn í óðul annarra.“ Þar höfum við það, tjaldar eru swingarar.
Hér má sjá myndir af atlotunum:

Ljósmynd: Kolbeinn Þorsteinsson

Ljósmynd: Kolbeinn Þorsteinsson

Ljósmynd: Kolbeinn Þorsteinsson