Tjaldurinn Tryggvi og Tryggvína, maki hennar, hafa nú eignast þrjá unga og vinna nú hörðum höndum við að koma þeim á legg.
Tryggvi og frú hafa átt óðal ofan á þaki Ísólar síðan sirka 1990 og á þeim tíma náð að koma fjölmörgum ungum á legg, samkvæmt heimildum Mannlífs. Hafa hjúin verið afar vinsæl hjá starfsfólki sem vinnur í Ármúlanum og hafa tjaldarnir verið vorboðar svæðisins enda koma þeir á sama tíma á hverju vori.
Nú hafa þau Tryggvi og Tryggvína eignast þrjá gullfallega unga sem spígspora á þaki Ísólar undir vökulum augum foreldranna sem kenna þeim á lífið einss og allir góðir foreldrar. Því miður hafa fleiri augun á fuglunum en foreldrarnir og blaðamenn Mannlífs sem vinna við hlið Ísólar, því mávahjónin Sultur og Svöng fylgjast haukfráum augum á ungana og hugsa sér gott til glóðarinnar. Tryggvi og Tryggvína hafa sem betur fer beittari gogg en mávarnir svo líklegast tekst þeim að verja ungana sína fyrir svöngum mávunum.