Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

20 ára Harry Potter á hvíta tjaldinu: „Í upphafi óraði engan fyrir að þetta yrði svona vinsælt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 30. nóvember árið 2001, fyrir næstum því sléttum 20 árum síðan, var fyrsta kvikmyndin um galdrastrákinn Harry Potter frumsýnd á Íslandi. Viðhafnarfrumsýning hafði verið á kvikmyndinni þann 4. nóvember í London en almenn frumsýning var síðan þann 16. nóvember á Bretlandi og í Bandaríkjunum.

Þetta var kvikmynd sem gerð var eftir fyrstu bókinni í seríunni eftir J. K. Rowling – Harry Potter og Viskusteinninn (e. Harry Potter and the Philosopher’s Stone). Hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu víða um heim og var Ísland svo sannarlega engin undantekning þar á.

 

Heilu bekkirnir tóku sig saman um miðakaup

Myndin vakti strax stormandi lukku þegar hún var frumsýnd hér á landi og börn flykktust í kvikmyndahúsin til að berja vinina Harry, Ron og Hermione augum – sum oftar en einu sinni. Hún var bæði sýnd með upprunalegu ensku tali og íslenskri talsetningu.

Þessi fyrsta mynd var ansi trú bókinni, sennilega hvað mest af þeim átta kvikmyndum sem gerðar voru eftir sögum Rowling. Hún malaði gull, bæði með kvikmyndaaðsókn og sölu á varningi. Bæði bækurnar og myndirnar höfðu djúpstæð áhrif á heila kynslóð barna sem óx upp samhliða þeim (jafnvel allt upp í þrjár kynslóðir, ef út í það er farið) og sannkallað Harry Potter-æði greip um sig úti um allan heim.

Það er eftir sýningu þessarar fyrstu myndar sem bæði börn og fullorðnir fóru að mæta á frumsýningar myndanna sem á eftir komu, uppáklædd í skikkjur, með strákústa og töfrasprota, trefla merkta sinni uppáhalds heimavist og litlar tuskuuglur í eftirdragi.

- Auglýsing -

„Það eru dæmi um að heilu bekkirnir hafi tekið sig saman og keypt miða á sýninguna,“ sagði Davíð Jónatansson, bíóstjóri Sambíóanna í Keflavík í aðdraganda frumsýningarinnar hér á landi, í samtali við Víkurfréttir.

Það var bókaútgáfan Bjartur sem gaf fyrstu bókina út á íslensku árið 1999 og rataði bókin í ófáa jólapakkana það árið. Bókin hafði hinsvegar komið út tveimur árum fyrr í Bretlandi og árið sem hún kom út hér var Rowling þegar búin að gefa út þrjár bækur í flokknum. Það voru því einungis tvö ár liðin frá útgáfu fyrstu bókarinnar á íslensku þar til kvikmyndin kom út.

Harry Potter og Viskusteinninn. Warnes Bros.

2011 höfðu Íslendingar eytt 900 milljónum í Potter

Til að gefa vísbendingu um það mikla peningaveldi sem hefur risið í kringum sögurnar um galdrastrákinn knáa þá birtist grein á Vísi árið 2011, rétt áður en áttunda og síðasta kvikmyndin kom út, um það hvernig Íslendingar höfðu á þeim tíma eytt 900 milljónum í Harry Potter.

- Auglýsing -

Í greininni, sem skrifuð er af Frey Gígju Gunnarssyni, segir:

„Íslendingar hafa keypt Harry Potter-bækur, mynddiska og bíómiða fyrir 900 milljónir íslenskra króna. Þá er ekki tekið með í reikninginn tölvuleikirnir og þær ótalmörgu skólatöskur, pennaveski og jafnvel boltar sem hafa selst eins og heitar lummur í leik- og ritfangaverslunum landsins. Síðustu forvöð eru að sjá síðustu Harry Potter-myndina, Harry Potter og Dauðadjásnin 2, í bíó um þessar mundir.“

„Að meðaltali hefur hver bók selst í tuttugu þúsund eintökum,“ sagði Guðrún Vilmundardóttir hjá Bjarti-Veröld, útgefanda bókanna hér á landi, í samtali við blaðamann í greininni. Eins og fram kemur í greininni þýðir þetta að 140 þúsund Harry Potter-bækur höfðu selst hér á landi á þessum tímapunkti.

„Ef hver þeirra kostar í kringum 2.500 krónur hafa Potter-bækur verið seldar fyrir 350 milljónir íslenskra króna,“ segir í grein Vísis.

Um útgáfu kvikmyndanna segir í greininni:

„Þorvaldur Árnason, framkvæmdarstjóri Samfilm, segir að frá því að fyrsta myndin um Potter og vini hans var frumsýnd árið 2001 hafi 430 þúsund gestir séð Harry Potter-myndirnar átta, bíómiðar hafi því verið seldir fyrir 360 milljónir.

Nýjasta myndin, Harry Potter og Dauðadjásnin 2, hefur þegar halað inn 63 milljónir í miðasölu.

„Í upphafi óraði engan fyrir að þetta yrði svona vinsælt í tíu ár. Maður er náttúrulega bara rosalega glaður og það er ekki hægt að kvarta undan Harry Potter,“ en hver einasta Potter-mynd hefur halað inn yfir milljarð dala í miðasölu á heimsvísu.
En þá er ekki allt upptalið því Þorvaldi reiknast til að hátt í 75 þúsund Harry Potter-mynddiskar hafi selst hér á landi og miðað við útsöluverð, sem er 2.500 krónur, gerir það sölu upp á 187 milljónir.“

 

Spáð vinsældum á borð við Titanic

Þann 7. nóvember árið 2001, eftir fyrstu frumsýningu myndarinnar í London, kom út grein í DV um væntanlega frumsýningu hér á landi, eftirvæntinguna og hina ungu leikara sem stigu þarna sín fyrstu skref á hvíta tjaldinu.

„Sjálfsagt hefur sjaldan verið beðið með jafn mikilli eftirvæntingu eftir frumsýningu einnar kvikmyndar og fyrstu myndarinnar um Harry Potter. Og það var ljóst fyrir sýninguna í Leicester Square í London á sunnudaginn að merkisviðburður var að eiga sér stað.“

Í greininni er hrifning gesta, jafnt gagnrýnenda og annarra bíógesta, sögð hafa verið mikil.

„[…] og er þegar farið að tala um að hún gæti orðið vinsælli en Titanic sem er vinsælasta kvikmynd sem gerð hefur verið.“

 

Emma Watson safnaði eiginhandaráritunum

Á viðhafnarfrumsýningunni í London voru ungu leikararnir þrír sem léku Harry, Ron og Hermione, sögð hafa verið bæði glöð og spennt, en feimnastur og mest hissa á öllu umstanginu var aðalleikarinn sem lék Potter, Daniel Radcliffe.

Hann var sagður hafa horft stóreygður á allt umstangið, fjölmiðlana og stórstjörnurnar sem viðstaddar voru. Aðspurður hvort hann ætlaði sér að safna peningunum sem hann fengi fyrir leik sinn í kvikmyndunum, gat hann rétt stunið upp: „örugglega,“ skrækum rómi.

Emma Watson, sem lék Hermione Granger, var bæði taugaóstyrk og spennt að eigin sögn og sagðist örugglega eiga eftir að gubba. Hún mætti á sýninguna með litla stílabók til að safna eiginhandaráritunum í.

Daniel Radcliffe í hlutverki Harrys.

Jóla-Potter

Greinin í DV frá 7. nóvember árið 2001 endar á orðunum:

„Fyrstu kvikmyndinni er spáð metaðsókn og hver skyldi nú verða jólagjöfin í ár? Ekki kæmi á óvart að það yrðu Harry Potter-leikföng en þegar er búið að skrifa undir hundrað milljón dollara samning við leikfangafyrirtæki.“

Blaðamaðurinn sem skrifaði greinina var aldeilis sannspár og er það vægt til orða tekið, því enn þann dag í dag er ekkert lát á sölu á varningi tengdum kvikmyndunum um Harry Potter. Sömuleiðis er enn mikið áhorf á myndirnar sjálfar og ýmsir sem hafa það til dæmis fyrir órjúfanlegan jólasið að horfa á þær yfir hátíðarnar, maulandi smákökur og sötrandi jólaöl.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -