Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Tvær sögur af Þóri Sæmundssyni: „Hann vissi allan tímann að hann var að tala við barn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var 17 ára þegar hann byrjaði að senda óviðeigandi skilaboð á Facebook,“ segir í frásögn ungrar konu sem lýsir þar reynslu sinni af samskiptum við Þóri Sæmundsson, sem kom fram í viðtali í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær. Mannlíf fékk söguna senda og er hún birt með góðfúslegu leyfi konunnar.

Þær frásagnir sem hér á eftir fara eru einhliða og því birtar með fyrirvara. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Þóri Sæmundsson við vinnslu fréttarinnar.

Konan segir frá því hvernig þau Þórir hafi á þessum tíma leikið saman í sýningu. Þar var hann í aðalhlutverki en hún tilheyrði barnahópi í leikritinu og var, eins og áður sagði, enn barnung þegar samskipti þeirra hófust.

Hún segir frá því hvernig hún hafi seinna meir hitt hann á bar og farið heim með honum, þá orðin 18 ára gömul. Þau hafi í framhaldinu sofið saman.

„Þar sagði hann meðal annars að ég væri svo ung og saklaus.“

Hún lýsir því hvernig hann hafi seinna falast eftir því við hana og aðra stúlku, þá 17 ára, að þær kæmu heim með honum og þau færu í trekant (threesome). Hann hafi reynt að selja hugmyndina með því að segja stelpunum að hann ætti mjög mikið af grasi.

- Auglýsing -

Stuttu seinna hafi hún og tvær vinkonur hennar, þær allar á aldrinum 17-18 ára, átt í Snapchat-samskiptum við Þóri, þar sem hún segir hann ýmist hafa sent myndir af typpinu á sér eða beðið þær um að koma til sín í kynlífsorgíu (foursome).

„Á þessum tíma var ég mjög ung og leit upp til eldri og reyndari manns sem naut virðingar í leikhúsi og sjónvarpi og var upp með mér að fá athygli frá honum og að hann vildi sofa hjá mér. En þegar ég lít til baka núna finnst mér þetta allt mjög ógeðslegt og að hugsa til þess að ég hafi verið rétt skriðin yfir 17 ára aldur og varla komin með brjóst eða búin með kynþroskann.“

„Einnig finnst mér vont að hugsa til stöðunnar sem ég var í gagnvart honum sérstaklega eftir þetta þar sem hann lék aðalhlutverk í leikritinu en ég var partur af barnahóp og hafði því ekki jafn mikið vægi í stóra samhenginu fyrir utan að vera töluvert yngri.“

- Auglýsing -

Sagan var í fyrsta sinn birt í lokuðum Facebook-hópi árið 2017. Þá sagðist unga konan enn vera að átta sig á því að þetta hafi ekki verið í lagi, þótt hún hafi viljað sofa hjá honum á sínum tíma. Hún hafi hinsvegar ákveðið að birta sína sögu eftir að hafa séð umfjöllun fjölmiðla um mál Þóris og uppsögn hans frá Þjóðleikhúsinu á sínum tíma.

„Við getum ekki kennt óskilgreindum aldri um þennan „klaufaskap“ hjá honum, í mínu tilfelli vissi hann allan tímann að hann var að tala við barn,“ segir hún.

 

Aldrei á ævinni unnið með jafn óþægilegum leikara

Önnur frásögn sem Mannlíf hefur undir höndum, fjallar um reynslu konu af því að starfa með Þóri í leikhúsi og slæma framkomu hans við samstarfsfólk. Þessi saga var líka birt í lokuðum hópi árið 2017 og er, eins og sú fyrri, birt með leyfi viðkomandi.

„Flott að hann sé að leita sér hjálpar og að vinna í sínum málum, en aldrei á ævinni hef ég unnið með jafn óþægilegum leikara. Sem betur fer fékk ég ekki typpamynd, en framkoman, skíturinn, hrokinn og viðbjóðurinn sem við fengum þegar hann mætti inn í smink var gjörsamlega óbærilegur.

Held að hver einasta stelpa sem ég þekki eigi einhverja skítasögu af honum. Mín er sú að hann ætlaði að ganga í skrokk á mér í partýi einu sinni eftir að hann var búinn að grýta bjórnum sínum í gólfið, þar sem ég var búin að drulla yfir hann fyrir að haga sér við stelpurnar eins og þær væru einhver bráð sem hann ætlaði að komast yfir.

Eftir að hann kallaði sjálfan sig femínista, bað hann vinsamlegast að kalla sig það aldrei aftur þar sem konur væru bara leikföng í hans augum, já eða þær sem ættu að þjónusta hann. Þá var það náttúrulega túlkað að ég væri að kalla hann nauðgara.

Súrrelískasta móment lífs míns. Batnandi mönnum er best að lifa, en sumum er því miður ekki viðbjargandi. Hér er ein af mínum sögum, out in the open. Þegjum ekki lengur yfir svona yfirgangsseggum sem kunna ekki að haga sér.“

Þórir Sæmundsson í Kveik. Mynd/skjáskot RÚV

Sakaður um að senda barnungum stúlkum nektarmyndir

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur, sem var á dagskrá RÚV í gærkvöldi, virðist ekki hafa farið framhjá mörgum og hefur umræðan í kjölfarið verið hávær.

Í þættinum lýsti Þórir Sæmundsson vonlausri stöðu sinni fjórum árum eftir að hafa verið sagt upp í Þjóðleikhúsinu í kjölfar þess að kynferðisleg myndasending hans komst í hámæli. Hann sé til dæmis búinn að vera meira eða minna atvinnulaus allan þennan tíma.

Þórir hefur verið sakaður um að hafa sent fimmtán ára stúlkum mynd af kynfærum sínum í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. Í Kveik í gærkvöldi sagðist Þórir ekki hafa vitað að um væri að ræða einstaklinga undir lögaldri. Hann sagði að stúlkurnar hefðu tjáð honum að þær væru átján ára. Eftir að hafa fengið myndir af kynfærum hans segir hann þær hafa sagt að þær hafi „náð honum“.

Hann gekkst í þættinum við því að hafa sofið hjá mörgum konum og oft hagað sér ósæmilega. Hann vildi þó ekki kannast við að hafa áreitt eða átt í kynferðislegum samskiptum við stúlkur undir lögaldri. Ekki nema þetta eina skipti þar sem hann var gabbaður, að eigin sögn.

Þórir lýsti því að hann hefði verið í neyslu á tímabili og afar erfiður í samskiptum. Hann sagði það meðal annars víst að hann hefði gengið of nærri samstarfskonum sínum í Borgarleikhúsinu þegar hann lék í söngleiknum Mary Poppins árið 2015.

„Þarna er ég ennþá í neyslu og er svolítið ruglaður á því og er að vinna með mörgum ungum konum,“ sagði Þórir. Hann sagðist svo hafa fengið tiltal frá leikstjóra sýningarinnar eftir að ein þeirra kvartaði yfir skilaboðum frá honum.

Þórir gekkst við því að um hefði verið að ræða óviðeigandi skilaboð, en ekki nektarmyndir.

Þóra Arnórsdóttir sagði við Þóri í þættinum að ef hann væri að fela eitthvað eða ekki að segja satt og rétt frá myndi það tvímælalaust koma upp eftir sýningu þáttarins. Sagði Þórir þá við hana að ef svo væri, væri það löngu komið fram í okkar litla samfélagi.

Ekki tókst að ná í Þóri Sæmundsson við gerð þessarar fréttar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -