Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi um líkamsárás þar sem hnífi var beitt. Fjórir menn voru handteknir í kjölfarið en þremur var sleppt úr haldi þegar líða tók á nóttina. Miðlæg deild lögreglu rannsakar málið en þolandi var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi slasast alvarlega. Í miðbæ Reykjavíkur þurfti lögregla að hafa afskipti af manni sem hafði verið með læti. Sá var í annarlegu ástandi og þurfti því að vista hann í fangaklefa.
Síðar um kvöldið barst lögreglu tilkynning um hóp ungmenna í slagsmálum. Þar höfðu nokkrir ráðist að einum en samkvæmt dagbók lögreglu eiga tvær stúlkur, sem tóku mestan þátt í árásinni, von á kæru. Sem betur fer voru meiðsli aðeins minniháttar. Þá sinnti lögregla umferðareftirliti og handtók tvo ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.