Vigfús Markússon ólst upp á Eyrarbakka og þar með í nálægð við sjóinn og hann hefur aldrei unnið í landi. Hann fór snemma á sjóinn og var rétt rúmlega tvítugur þegar hann og tveir bræður hans voru á Bakkavík ÁR 100 þegar báturinn fórst í september árið 1983. Báðir bræður hans fórust í sjóslysinu. Vigfús var kominn aftur á sjóinn um mánuði síðar og eftir að hafa klárað Stýrimannaskólann hefur hann verið fengsæll skipstjóri. Harmurinn er alltaf innra með honum.
Þann 7. september árið 1983 fórst vélbáturinn Bakkavík ÁR 100 eftir að hafa fengið á sig brotsjó fyrir utan sundið sem markar innsiglinguna til Eyrarbakka. Þrír bræður voru um borð; Vigfús, Þórður og Sigfús Markússynir. Vigfús var „alt mulig mand“, Þórður var skipstjóri og Sigfús var vélstjóri. Þeir tveir síðarnefndu áttu bátinn.
„Við vorum austur á bugt á snurvoð. Túrinn var búinn og við vorum á leiðinni heim á Eyrarbakka. Þegar við vorum að nálgast var Þórður að pæla í að fara bara í Þorlákshöfn; það var að falla út. En svo hætti hann við og beygði inn á bakkann eins og venjulega. Það var annar búinn að fara rétt á undan okkur inn. Það var ekkert að veðri,“ segir Vigús og bætir við að honum hafi liðið illa þegar Þórður ákvað að fara inn og að hann hafi eiginlega verið búinn að ákveða að hætta eftir þennan túr. Hann var þá rúmlega tvítugur.
Brot reis upp hjá skerinu Brynka og fór Bakkavíkin á hliðina. Síðan kom annað brot á bátinn og þá fór hann á hvolf og var sokkinn innan 15 mínútna.
„Ég var inni í brú þegar þeir komust út, strákarnir, og þegar maður var að kafa þá lenti maður beint á dekkinu. Við vorum með aukabjörgunarbát, sem þurfti ekki á þessu bátum, og hann blés upp. Ég synti að honum og komst um borð í bátinn og náði síðan Sigfúsi. Þórður var búinn.“ Látinn. „Ég náði honum inn.“
Neyðarblysum var skotið á loft og þess má geta að tveir menn stóðu á bryggjunni og sáu það sem átti sér stað. Markús segir að þeir hafi verið að veltast í bátnum í á annan tíma í briminu. „Ég var kominn í Ölfusárós.“ Brot kom síðan á björgunarbátinn og sprengdi hann.
„Ég sagði Sigfúsi að reyna að synda í land; hann hafði verið í hálfgerðu taugaáfalli þegar ég náði honum inn í bátinn. Sigfús var góður sundmaður, en hann náði ekki að synda í land.“
Vigfúsi tókst að hanga á bátnum og voru það tveir menn frá Stokkseyri sem komu á báti og björguðu honum. Þá var togið í björgunarbátnum fast vafið um annan fótinn á honum. „Það er eins og ég hafi ekkert átt að fara.“
Hann segir að það hafi skipt máli að hann var „þykkur“ og svo hafði hann lært köfun. „Það hjálpaði mér við öndun.“
Þess má geta að foreldrar bræðranna voru vanir að fylgjast með þegar báturinn var að koma að landi, en þennan dag lagði faðir þeirra sig í hádeginu. Oft hafði á heimilinu verið setið í hring og talað um báta. „Það var ekki talað um annað en báta.“
Og bátur bræðranna var kominn á hafsbotn.
„Ég fann ekki fyrir kulda fyrr en ég var kominn í sjúkrabílinn. Ég man að ég sagði lögreglunni að kveikja á helvítis miðstöðinni; ég var kominn svolítið neðarlega í hitastigi. En ég var alltaf með fulla rænu.“
Sjá þáttinn í heild sinni hér.