Lögreglan sat ekki auðum höndum í gærkvöldi og í nótt, frekar en fyrri daginn, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Nokkuð var um tilkynningar um slagsmál í miðborginni en tveir aðilar voru handteknir grunaðir um stórfellda líkamsárás þar sem eyra var bitið af manni.
Einstaklingur sem olli umferðaslysi stakk af vettvangi, ekki kom fram í dagbókinni hvort lögreglan hafi fundið manneskjuna. Töluvart var um hávaðatilkynningar og tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi í miðborginni. Þá var hjólaþjófur nappaður af lögreglunni.
Lögreglan sem sér um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes hafði afskipti af ökumanni sem keyrði um á nagladekkjum og það án réttinda.
Einn ökumaður keyrði á aðra bifreið og var handtekinn, grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna.
Þá handtók lögreglan tvo aðila fyrir meiriháttar líkamsárás en þeim var sleppt rétt undir morgun.
Lögreglan hafði einnig afskipti af leigubifreið sem var með forgangsakstursljós í rúðunni.
Lögreglan sem sér um Kópavog og Breiðholt hafði afskipti af tveimur ökumönnum á vörubifreiðum sem ekki gátu framvísað ökuskirteini og voru þar að auki án aukinna réttinda og notuðu ekki ökumannskort.
Ölvunarpóstur var settur upp í Smárahverfi í Kópavogi þar sem 80 ökumenn voru stoppaðir en átta ökumenn voru handteknir, grunaðir um ölvunarakstur.
Í Vatnsendahverfi í Kópavogi barst tilkynning um rafskútuslys en engar frekari upplýsingar fylgdu dagbókinni.
Í Grafarholtinu barst lögreglu tilkynning um einstaklinga sem voru að reykja kannabis. Í sama hverfi var einnig tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi sem var að reyna að fara í bíla.
Í hverfi 108 var tilkynnt um innbrot.