Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum að hún rannsaki alvarlegt umferðarslys sem átti sér stað á tólfta tímanum í dag á Grindavíkurvegi. Tilkynning um slysið barst Neyðarlínunni um klukkan 11:35 og mættu viðbragðsaðilar á vettvang undir eins. Þegar þeir mættu voru tvö ökutæki utan vegar en ökumaður og farþegi annars ökutækisins voru úrskurðuð látin á vettvangi.
Lögreglan segir rannsókn málsins á frumstígi en miðar að því að upplýsa um tildrög slyssins. Þá var rannsóknarnefn samgönguslysa upplýst um málið og Tæknideild lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu fengin til að aðstoða við vettvangsrannsóknir.
Um tíma var Grindavíkurvegi lokað á meðan vettvangsrannsókn fór fram en hann hefur nú verið opnaður aftur. Mikil hálka ku hafa verið á slysstað en veðuraðstæður góðar. Nú er unnið að því að tilkynna aðstandendum hinna látnu um slysið en lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar að svo stöddu.