Tveir létust í heimahúsi í Bolungarvík í gær en um er að ræða sambýlisfólk á sjötugsaldri. Eins og staðan er nú, er ekki grunur um að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti.
„Okkur er verulega brugðið,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík í samtali við Bæjarins besta. „Þetta er harmleikur sem átti sér stað en rétt að taka fram að ekki er hættuástand. Bolungarvík er friðsælt samfélag“.
Jón Páll segir í samtalinu að „okkar hlutverk er að sýna hluttekningu og vera til staðar fyrir þá sem eiga um sárt að binda.“
Samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum óskaði hún eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu auk réttarmeinarfræðings til að taka þátt í vettvangsrannsókn á málinu. Lauk henni í nótt og fer réttarmeinafræðileg rannsókn fram í kjölfarið. Lögreglan vill ekki gefa frekari upplýsingar um rannsókn sína að sinni.