Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Ugla segir Peterson dreifa misvísandi og hættulegum upplýsingum: „Hlustið á börnin ykkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir segir sálfræðinginn Jordan Peterson, sem kom fram í viðtali í Íslandi í dag á sunnudag, dreifa misvísandi og hættulegum upplýsingum um málefni trans ungmenna sem geti valdið ungu fólki skaða. Ummæli Peterson um transbörn og aðgerðir á þeim hafa vakið hörð viðbrögð innan transsamfélagsins á Íslandi.

„Svo það sé á hreinu: Jordan Peterson hefur enga sérþekkingu á trans málefnum né hefur unnið með trans ungmennum eða í heilbrigðisþjónustu fyrir trans ungmenni eða trans fólk almennt,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og baráttumanneskja fyrir málefnum transfólks, í færslu sem hún ritaði á Facebook-síðu sinni.

„Það sem hann hefur að segja um þennan málaflokk er þvert á aðferðir sérfræðinga og fólks sem vinnur með börnum í þessum málaflokki. Hann er bókstaflega að dreifa misvísandi og hættulegum upplýsingum sem geta valdið ungu fólki skaða ef þeim er fylgt,“ segir Ugla.

Sagði heilbrigðisstarfsfólk limlesta börn

Kanadíski sálfræðingurinn og fyrirlesarinn Jordan Peterson hélt fyrirlestur fyrir fullu húsi í Háskólabíói á laugardagskvöld. Á laugardagsmorgun tók Snorri Másson viðtal við Peterson fyrir fréttaþáttinn Ísland í dag á Stöð 2. Í viðtalinu átti Peterson frumkvæði að umræðu um málefni transfólks, en hann sagði meðal annars að heilbrigðisstarfsfólk limlesti börn með skurðaðgerðum. Hann sagðist einnig vilja banna aðgerðir á transbörnum undir 18 ára aldri og gera þeim lagalega kleift að lögsækja heilbrigðisstarfsfólk sem framkvæmi á þeim slíkar aðgerðir.

Eftir viðtalið við Peterson áréttaði Snorri að sárasjaldgæft væri að þær kynleiðréttingaraðgerðir sem hann vísaði til væru framkvæmdar á einstaklingum yngri en 18 ára í heiminum. Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 hefðu engar slíkar aðgerðir verið framkvæmdar á einstaklingi yngri en 18 ára á Íslandi. Stundum væru kynhormónabælandi meðferðir notaðar til þess að styðja við trans ungmenni en löng reynsla væri komin á slíkar meðferðir.

 

- Auglýsing -

Hvetur fólk til að sýna skilning

Jordan Peterson hefur í gegnum tíðina verið nokkuð umdeildur fyrir ýmsar skoðanir sínar, til að mynda á málefnum transfólks.

„Við sem samfélag myndum aldrei sætta okkur við slíka orðræðu ef hann væri að tala um samkynhneigð, og þess vegna ættum við ekki að sætta okkur við það varðandi transfólk heldur,“ segir Ugla í samtali við fréttastofu Vísis. Þar segir hún einnig að bæling kynvitundar hafi í langan tíma valdið transfólki miklum skaða.

Í færslu sinni á Facebook hvetur hún fólk til þess að sýna transbörnum og ungmennum skilning.

- Auglýsing -

„Ef ykkur er virkilega annt um velferð ungmenna þá ættuð þið að sniðganga þessa þvælu og mæta ungmennum frekar með umhyggju, skilning og hluttekningu. Fólk hættir ekki að vera hinsegin ef þú trúir þeim ekki. Þau hætta hinsvegar að treysta þér og bæla niður hver þau eru, sem veldur djúpstæðri vanlíðan og ama,“ segir í færslu Uglu.

„Hlustið á börnin ykkar og elskið þau skilyrðislaust. Ekki láta einhverja fordómafulla karlfauska sannfæra ykkur um eitthvað annað, sama hversu margar háskólagráður þeir hafa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -